133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

auglýsingar um fjárhættuspil.

[15:16]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Fjárhættuspil er bannað með lögum á Íslandi, nema spilakassar til fjáröflunar fyrir nokkur tiltekin samtök. Þrátt fyrir það hafa auglýsingar um fjárhættuspil á netinu hljómað mánuðum saman og birst í íslenskum fjölmiðlum án þess að athæfið sé stöðvað. Samkvæmt almennum hegningarlögum skal sá sem gerir fjárhættuspil eða veðmál að atvinnu eða kemur öðrum til þátttöku í þeim sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári. Í ljósi þessa er fullkomlega rökrétt að álykta að fjölmiðill og fyrirtæki sem auglýsa fjárhættuspil séu að brjóta lög.

Með auglýsingunni er hvatt til þátttöku í ólöglegu athæfi. Spilafíkn er alvarlegur og sívaxandi vandi, fíkn sem getur verið banvæn eins og dæmin sanna. Fram kom í fréttum nýverið að drengir niður í 14 ára stundi fjárhættuspil á netinu. Því fyrr sem unglingar byrja að spila, því hættara er þeim við að verða spilafíklar.

Við þessu verða stjórnvöld og löggjafinn að bregðast af festu eins og annarri ógn við heilsu og velferð. Á síðasta Norðurlandaráðsþingi var hvatt til aukins samstarfs í þessum efnum, hvatt til samræmdra aðgerða gegn alþjóðlegum fjárhættuspilamarkaði, sameiginlegra rannsókna og meðhöndlunar á spilafíkn. Við leyfum spilakassa til styrktar velferðarmálum sem er tvíeggjað sverð. Á þinginu kom fram að sá styrkur mundi minnka verulega ef þessi erlendu fyrirtæki fengju að starfa óhindrað.

Það er umhugsunarefni að veðmálafyrirtæki sem hér um ræðir er í eigu Íslendinga. Þetta er starfsemi sem getur verið hættuleg heilsu og velferð fólks og ég kalla til ábyrgðar og siðferðiskenndar eigenda, landa okkar sem hagnast á veikleika og fíkn, jafnvel barna, með starfseminni á netinu sem er á lagalega mjög gráu svæði.

Við bönnum auglýsingar á áfengi og tóbaki sem skaðar heilsu. Í ljósi þess ættu auglýsingar á ólöglegu fjárhættuspili enn frekar að vera óheimilar.