133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

auglýsingar um fjárhættuspil.

[15:18]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir að taka þetta mál upp og hæstv. ráðherra fyrir undirtektir. Ég hygg að þetta sé eitt af þeim málum sem er hafið yfir alla flokkadrætti og sé nokkuð þverpólitísk sátt um. Ég ítreka þakkir fyrir að hreyfa þessu viðkvæma og erfiða máli. Það er nefnilega mjög snúið og erfitt, það er svo fullt af andstæðum. Erfiðleikarnir eru m.a. vegna þess að fjárhættuspil í sjálfu sér felur í sér mikið af andstæðum, siðferðilegum, tæknilegum, praktískum og þar fram eftir götunum. Þetta er erfitt mál vegna þess að ýmsar góðgerðastofnanir og háskólar hafa tekjur af þessu og þó að flestir komi óskaddaðir frá þessari tekjulind fylgir því óhjákvæmilega að þar verða fórnarlömb. Sá hópur virðist jafnvel fara nokkuð stækkandi og þar er óhugnaðurinn. Það er líka erfitt vegna skilgreiningar. Hvenær hættir leikur að vera leikur og verður fíkn og sjúkdómur? Það veldur hinum mikla vanda.

Erfiðleikarnir eru líka af tæknilegum ástæðum þar sem netið er í sjálfu sér hafið yfir öll landamæri og þó að við vildum banna einhverjum að stunda slíka starfsemi hér gæti sá hinn sami flutt sig og stundað starfsemina, jafnbölvuð og hún kann að þykja í okkar huga, að utan enda netið hafið yfir landamæri.

Sá vandi sem hér er minnst á verður ekki leystur nema menn taki höndum saman í hinni samfélagslegu ábyrgð. Ég tek að því leytinu undir þær hugmyndir að skipa nefnd sérfræðinga til að skoða þá möguleika hvort yfir höfuð er hægt að taka á málinu og þá með hvaða hætti. Fórnarlömb spilafíknar hljóta auðvitað að vera aðalatriðið í því.