133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

auglýsingar um fjárhættuspil.

[15:23]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er ekki vanþörf á að taka þessi mál til rækilegrar athugunar því að yfirvöld hafa því miður verið ákaflega sofandi og það má segja að samfélagið allt hafi lengi verið ákaflega sofandi fyrir þeim miklu hörmungum sem spilafíkn í ýmsum myndum tengjast, jafnvel þrátt fyrir ötula baráttu ýmissa aðila, þar á meðal og ekki síst samtaka sem sérstaklega voru stofnuð fyrir nokkrum árum til að vekja athygli á þessu vandamáli.

Angi þessara mála birtist nú í því að íbúar í einstökum hverfum bindast samtökum til að koma í veg fyrir og hafna staðsetningu starfsemi af þessu tagi í þjónustumiðstöðvum sínum. Það sýnir, eins og t.d. hefur gerst í sambandi við Mjóddina í Reykjavík, að almenningur kærir sig ekki um þessa starfsemi í sínu nærumhverfi. Það sýnir að almenningur er meðvitaður um þær hættur sem þessu eru samfara og að ekki er við hæfi að blanda henni innan um aðra starfsemi þar sem t.d. börn og unglingar eiga greiðan aðgang að spilakössum og öðru slíku.

Það er ansi hart að engu að síður skuli það vera þannig að opinberar stofnanir og félagasamtök geri hana út í landinu. Maður spyr sig: Er ekki hægt að ná samstöðu um að þessum aðilum séu bættir þeir fjármunir sem þessi rekstur hefur skilað þeim á undanförnum árum, þeir fallist í staðinn á að nota ekki sín leyfi og þeim verði ósköp einfaldlega ekki úthlutað til annarra? Þau liggi þá þaðan í frá á grundvelli samkomulags við viðkomandi aðila ónotuð. Það er í öllu falli full ástæða til, frú forseti, að taka þetta til rækilegrar og feimnislausrar umræðu og við getum ekki skotið okkur endalaust á bak við það að í hlut eigi mikilvæg starfsemi eins og Háskóli Íslands, Rauði krossinn eða aðrir slíkir.