133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

auglýsingar um fjárhættuspil.

[15:29]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Spilafíkn er mikið vandamál sem hefur komist í hámæli á síðustu árum. Dæmi er um að spilafíkn heltaki fólk. Hún snertir ekki einungis þá sem eru háðir spilafíkn heldur einnig fjölskyldur, vini og alla aðstandendur. Spariféð hverfur og húseignir eru veðsettar. Hér er því gríðarmikið vandamál sem fer oft leynt og leyndara en önnur fíkn. Til dæmis má nefna að lykt berst úr vitum þeirra sem eru haldnir áfengisfíkn og eru stöðugt að sulla í áfengi en þeir sem eru haldnir spilafíkn koma ef til vill bara við í næstu sjoppu eða verslunarmiðstöð og tapa þar tugum þúsunda króna á skömmum tíma, eða þá eins og hefur komið fram í umræðunni setjast við tölvu og tapa þar háum upphæðum.

Mjög nauðsynlegt er að fara í gegnum þessa umræðu, hvernig við eigum að stemma stigu við slíkri fíkn. Við í Frjálslynda flokknum teljum mjög nauðsynlegt að efla rannsóknir á þessu sviði þar sem það verði að markmiði að kanna umfang spilafíknarinnar og ekki síður að koma og leita leiða hvernig megi stemma stigu við fíkninni og finna leiðir út úr þeim vanda. Það er mjög mikilvægt.

Það er umhugsunarefni að sjá hvaða samtök það eru sem standa fyrir spilakössum víða um land. Þetta eru góðgerðarsamtök. Mér finnst að við eigum ekki að setja slík félög í þá aðstöðu og við eigum að kalla þau félög til ábyrgðar ekki síður en þau einkahlutafélög sem stuðla að spilafíkn á netinu. Við eigum að leita leiða hvernig hægt er að ná utan um þá starfsemi. Vissulega er það rétt sem komið hefur fram í umræðunni að erfitt er (Forseti hringir.) að ná tökum á netinu en það er verkefni sem bíður okkar nú, að leita leiða út úr þeim vanda.