133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[16:04]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir hamingjuóskir síðasta hv. þingmanns til umhverfisráðherra fyrir að bera fram þetta frumvarp. Ástæðan fyrir því að ég kem hér í andsvar er það sem mér fannst skína í hjá hv. þingmanni, talsmanni Samfylkingarinnar í málinu, þ.e. vantraust á heimamenn til að stýra þjóðgarðinum. Hún tók það sérstaklega fram að meiri hluti í svæðisráðum og stjórn þjóðgarðsins væru heimamenn. Heimamenn eru þannig skipaðir að sveitarstjórnir tilnefna þrjá fulltrúa í svæðisráðin. Auk þess eru tilnefndir fulltrúar frá umhverfisverndarsamtökum og ferðamálasamtökum. Ég verð eiginlega að segja sem svo að mér þykir leitt að heyra þetta vantraust Samfylkingarinnar í garð þess fólks sem býr í þessu landi fyrir utan höfuðborgarsvæðið varðandi það að það geti ekki tekið að sér stjórn þess merka fyrirbæris sem við erum að fjalla um, þ.e. Vatnajökulsþjóðgarðar sem eðli málsins samkvæmt er á landsbyggðinni. Hann þekur raunar 13% lands á Íslandi og ... (Gripið fram í: En á Snæfellsnesi?) Ef hv. þingmaður vildi leyfa mér að klára þá finnst mér þetta svolítið sérkennilegt og þætti gott að heyra betur sjónarmið Samfylkingarinnar varðandi þetta vantraust á heimamenn.