133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[16:09]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er ástæða til að fagna því að við skulum taka til umræðu á Alþingi Íslendinga frumvarp til laga um Vatnajökulsþjóðgarð. Eins og komið hefur fram á þetta mál sér nokkra sögu. Rætur þess liggja í þingsályktunartillögu sem lögð var fram á Alþingi þann 6. október 1998, tillögu til þingsályktunar um þjóðgarð á miðhálendinu. Flutningsmaður hennar var Hjörleifur Guttormsson og lagði hann þá til að Alþingi fæli umhverfisráðherra að láta undirbúa stofnun fjögurra þjóðgarða á miðhálendi Íslands er hefðu innan sinna marka helstu jökla og aðliggjandi landsvæði. Samkvæmt hugmyndum Hjörleifs var gert ráð fyrir því að ráðherra ætti að kynna Alþingi stöðu málsins á vorþingi 1999 og að stefnt yrði að formlegri stofnun þjóðgarðsins árið 2000. Þessi tillaga fór eðli málsins samkvæmt í umhverfisnefnd og síðar á því þingi, eða nánar tiltekið hinn 9. mars 1999, skilaði umhverfisnefnd nefndaráliti og hafði þá fjallað um tillöguna sem var yfirgripsmikil. Eðli málsins samkvæmt þurfti að kalla talsvert til af gestum og nefndin fór vel ofan í saumana á meginhugmyndum Hjörleifs í þessum efnum. Í nefndarálitinu sem allir nefndarmenn skrifa undir má lesa að hún hafi talið rétt að takmarka ályktunina að nokkru leyti við það að fela umhverfisráðherra að láta kanna möguleika á stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs sem tæki til alls jökulsins með það í huga að unnt verði að stofna þjóðgarðinn á aldamótaárinu 2000. Með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs taldi nefndin að það mundi fást reynsla sem síðar gæti nýst við hugsanlegan undirbúning fleiri slíkra þjóðgarða á miðhálendinu. Ég tel þess vegna að miðað við það frumvarp sem við hér nú ræðum þá sé hugmyndafræði hinnar upphaflegu tillögu enn í fullu gildi sem umhverfisnefnd vorið 1999 lýsti í sjálfu sér stuðningi við þó svo að hún hafi ekki á þeim tíma verið tilbúin til að ganga svo langt sem tillaga Hjörleifs Guttormssonar gerði ráð fyrir.

Sú umhverfisnefnd sem þá sat vakti athygli þingmanna á því að tillagan félli afar vel að hugmyndum skipulagstillögunnar um miðhálendið og við þekkjum það sem í þessum sal sitjum og höfum fjallað um skipulag miðhálendisins úr þessum ræðustóli að svo er. Sömuleiðis vitum við að í þeirri vinnu sem stendur yfir varðandi þjóðlendurnar þá er þessi afmörkun miðhálendisins verkefnið sem farið var í á sínum tíma og kemur til með samkvæmt lögum samþykktum héðan að ljúka á árinu 2011. Ég sé því ekki annað en að sú vinna sem þar er í gangi renni enn stoðum undir þennan þjóðgarð, Vatnajökulsþjóðgarð, og sömuleiðis hugmyndirnar sem hin upphaflega tillaga gekk út á.

Eins og segir í nefndaráliti umhverfisnefndar frá vorinu 1999 þá var tekið fram að að Vatnajökli lægju ýmis svæði sem þegar nytu verndar að náttúruverndarlögum. Þar voru nefnd Lónsöræfi og Kringilsárrani og Lakagígar. Svo var náttúrlega nefndur þjóðgarðurinn í Skaftafelli sem hjálpaði auðvitað upp á sakirnar og gerði þetta allt saman auðveldara, þ.e. fyrir umhverfisnefnd að samþykkja að endingu tillögu sem fór fyrir Alþingi Íslendinga og var samþykkt héðan sem ályktun Alþingis. Hún var samþykkt þann 10. mars 1999 og gekk út á það að umhverfisráðherra yrði falið að láta kanna í samvinnu við skipulagsyfirvöld og hugsanlega rétthafa möguleika á að stofna Vatnajökulsþjóðgarð. Síðan leið tíminn. Stofnaður var starfshópur og hann skilaði skýrslu til Alþingis, ef ég man rétt, árið 2000 á 125. löggjafarþingi. Þá skýrslu má lesa á þingskjali frá því löggjafarþingi. Ljóst var að starfshópurinn hafði í tillögum sínum gert ráð fyrir því að friðlýsingin næði einungis til jökulhettunnar. Um það urðu talsverðar umræður, þ.e. hvort ekki væri ástæða að fara aðeins út í jaðarsvæðin og svæðin umhverfis jökulinn. Fólki þótti kannski að jökulhettan verndaði sig að mestu sjálf, en það skipti verulegu máli að fá svæði umhverfis jökulinn, jökulkragann inn í þessa friðlýsingu. Um það snerist umræðan að talsverðu leyti á ákveðnu tímabili. Svo urðu afdrif skýrslu starfsfólksins þau að það er lítið svo sem sem virðist gerast í málinu þangað til við fáum svör á Alþingi frá, ef ég man rétt, hæstv. forsætisráðherra við spurningum frá Þórunni Sveinbjarnardóttur um stöðu þingsályktunartillagna sem Alþingi hafði samþykkt. Hún innti ráðherrann eftir því hversu gangi með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Svaraði ráðherrann því þá til að stefnt væri að því að þjóðgarðurinn yrði formlega stofnaður árið 2002 á alþjóðlegu ári fjalla. Þá var nú fagnað. En enn leið og beið og hér stöndum við nú. Það fer að hilla undir vor 2007 og hæstv. umhverfisráðherra Jónína Bjartmarz er nú komin með frumvarp til laga um Vatnajökulsþjóðgarð. Þess vegna segi ég að í ljósi þessarar sögu sem er orðin nokkuð löng er ástæða til að fagna því að málið skuli fram komið.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum hvað eftir annað hreyft málefnum tengdum Vatnajökulsþjóðgarði á Alþingi Íslendinga. Við höfum lagt fram tillögur að friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum sem við höfum talið að gæti verið hluti Vatnajökulsþjóðgarðs. Í draumum okkar höfum við kannski séð fyrir okkur þjóðgarð sem næði frá strönd til strandar, frá söndunum í suðri og norður yfir Vatnajökul og norður eftir upptakakvíslum Jökulsár á Fjöllum og ásamt Jökulsánni, Mývatnssvæðinu og Ásbyrgi gæti endað í árósum Jökulsár á Fjöllum við Öxarfjörð. Þá værum við með glæsilegan þjóðgarð sem teygði sig þvert yfir landið, eins og ég segi, frá strönd til strandar.

Ég sé svo sem ekki loku fyrir það skotið að þannig þjóðgarður gæti litið dagsins ljós á grundvelli þess frumvarps sem hæstv. umhverfisráðherra hér hefur talað fyrir. Hins vegar má segja að það sé veikt í frumvarpinu á hvern hátt gert er ráð fyrir að afmörkun hans fari fram eða verði. Ég ef efasemdir um að það sé nægilega sterkt að orði kveðið í frumvarpinu varðandi þessa afmörkun hans samkvæmt reglugerð eða með reglugerð. Ég veit að það verður eitt af atriðunum sem umhverfisnefnd kemur til með að taka til rækilegrar skoðunar í vinnu sinni við málið, þ.e. hvort betur þurfi að gera til að segja megi að staðið sé af þeirri reisn sem við öll viljum að gert verði að stofnun þessa þjóðgarðs.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum líka lagt fram tillögur varðandi hálendið norðan Vatnajökuls. Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í að rifja upp deilur okkar og ágreining við ríkisstjórnarflokkana um þá ákvörðun að reisa Kárahnjúkavirkjun á því dýrmæta landsvæði eða þann gjörning að aflétta friðun á Kringilsárrana, mikilvægu friðlandi norðan Vatnajökuls, norðan Brúarjökuls, til þess eins að koma fyrir uppistöðulóninu vegna Kárahnjúkavirkjunar. Ég vil segja það eitt að það er auðvitað leiðinlegt að þurfa að horfa á kort af mögulegum þjóðgarði sem ævinlega verður því marki brenndur að inn í hann miðjan er rekinn þessi fleygur. Virkjunin er þarna og verður og kemur auðvitað ekki til með að geta orðið hluti þjóðgarðsins. Ég kem því alltaf til með að líta svo á að þarna standi fleinn í holdi þjóðgarðsins sem hefði ekki þurft að vera ef við hefðum ráðið ráðum okkar öðruvísi á Alþingi Íslendinga þegar sú ákvörðun var til umfjöllunar.

Þó er gott, og guð láti gott á vita, að Framsóknarflokkurinn hefur áttað sig á því að náttúruvernd er í eðli sínu atvinnuskapandi og hefur hæstv. umhverfisráðherra Framsóknarflokksins Jónína Bjartmarz gert grein fyrir því hér hvernig hún sjái störf sem geti skapast í tengslum við þjóðgarðinn og ég tek sannarlega undir það. Það er ánægjulegt að sjá þennan möguleika verða til, þ.e. að fjöldi starfa geti orðið til á atvinnusvæði sem hefur átt undir högg að sækja og sem hefur verulega þurft á því að halda að fá styrkingu. Ég fagna því heitt og innilega að nú skulum við sjá þetta svæði styrkjast fyrir tilstuðlan náttúruverndar, ákvörðunar sem byggir á náttúruvernd og hugmyndafræði náttúruverndarinnar. Ég lýsi því bara yfir að ég horfi björtum augum fram á veginn í þessum efnum því hér getur skapast fjöldi nýrra starfa og hér getur risið öflugur hópur fólks sem mun ryðja brautina til áframhaldandi stórvirkja í þessum efnum. Ég ítreka það að við Íslendingar erum að stíga okkar fyrstu skref varðandi stofnun þjóðgarða og varðandi — hvað á ég að segja? — það að fylgja leiðsögn alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna IUCN í þessum efnum. Allt sem lýtur að vinnu nefndanna sem hafa starfað að undirbúningi sem varðar svæðisskiptingu IUCN og skilgreiningu þeirra samtaka á ólíkum svæðum sem geta heyrt til þjóðgarði, þó svo verndarkvöðin sé mismikil, allt er þetta til fyrirmyndar og í samræmi við þá nútímalegu hugmyndafræði sem IUCN hefur rutt braut í þjóðgarðamálum.

Hérna eru ákveðnir þættir sem lúta að stjórnsýslu þjóðgarðsins sem auðvitað verða skoðaðir í nefndinni. Nú þegar hefur verið hreyft í umræðunni sjónarmiðum varðandi aðkomu Umhverfisstofnunar og náttúruverndarsviðs Umhverfisstofnunar að þjóðgarðinum. Umhverfisstofnunar er getið á nokkrum stöðum í frumvarpinu. Gert er ráð fyrir að Umhverfisstofnun hafi ákveðnu hlutverki að gegna ásamt Náttúrufræðistofnun varðandi verndaráætlunina, þ.e. það á að vinna hana í samráði við Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands. Það er líka gert ráð fyrir því að sameiginlegur ársfundur stjórnar þjóðgarðsins og Umhverfisstofnunar og svæðisráðanna verði haldin. Það er samkvæmt 17. gr. Svo er líka gert ráð fyrir því í 11. gr., sem er eiginlega sú grein sem fjallar um Umhverfisstofnun, að hún veiti aðstoð og faglega ráðgjöf við verkefni stjórnar og svæðisráða samkvæmt sérstökum samstarfssamningi. Þetta vekur hugleiðingar um stjórnsýslu þjóðgarða og friðlýstra svæða almennt. Ég geri ráð fyrir að þetta verði eitt af þeim málum sem við tökum til sérstakrar skoðunar í nefndinni. Auðvitað má spyrja sem svo hvort þjóðgarðar og friðlýst svæði eigi ekki að vera samferða í stjórnsýslunni og hvort við þurfum ekki að horfa heildstætt á það hvernig þjóðgörðum og friðlýstum svæðum sé fyrir komið innan stjórnsýslunnar. Ég tel því að hér hafi verið hreyft eðlilegum sjónarmiðum og tel að þetta verði einn af meginþáttunum sem nefndin kemur til með að skoða.

Ég vil líka leggja áherslu á það að þó að í ráðgjafarnefndinni sem stendur að skýrslunni, sem dagsett er í nóvember síðastliðnum, hafi einungis verið fulltrúar frá þeim sveitarfélögum sem hlut eiga að máli á þessu svæði þá verðum við auðvitað að átta okkur á því að stefnan í málefnum þjóðgarða og friðlýstra svæða er nokkuð sem öll þjóðin hefur skoðun á. Þetta eru okkar sameiginlegu auðlindir. Þetta eru náttúrugersemar þjóðarinnar. Auðvitað verðum við öll sem hér erum, fulltrúar ólíkra einstaklinga eða ólíkra svæða í þessu landi, að átta okkur á því að við þurfum að ná því að gera þennan þjóðgarð þannig trúverðugan að þetta verði þjóðgarður þjóðarinnar allrar. Það held ég að hljóti að vera einlægur vilji okkar allra sem hér sitjum. Ég held að hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir hafi í sjálfu sér enga ástæðu til að ætla að hér verði togstreita um þau mál. Ég held að við hljótum að geta staðið hér saman um að málinu verði lent farsællega. Við eigum möguleika á að standa vel að verki með því að vinna málið vel í umhverfisnefndinni. Við eygjum líka möguleika á því að langþráður draumur rætist um þjóðgarð á heimsmælikvarða sem orð er á gerandi en er ekki í þessum sýnishornastíl sem við höfum í sjálfu sér verið að friðlýsa landið okkar hingað til þar sem svæðin hafa alltaf verið allt of lítil og ekki í tengslum við neitt í sjálfu sér í umhverfi sínu, ekki verið innan landslagsheilda. Margt má gagnrýna í þeim efnum, þ.e. hvernig framganga okkar hefur verið hingað til. Ég segi: Við skulum bara reyna að horfa björtum augum fram á veginn með það að leiðarljósi að hér verði vandað til verka og að áður en upp verður staðið förum við héðan með einhvers konar ekki bara heit um það að Vatnajökulsþjóðgarður verði hinn glæsilegasti heldur ásetning okkar sem sitjum löggjafarsamkunduna á þessu vori að hægt verði að halda hér þannig á málum að Vatnajökulsþjóðgarður verði stofnaður og að hann verði sú gersemi sem hugur okkar allra stendur til. Ég treysti því og veit auðvitað að við þingmenn sem sitjum í umhverfisnefnd eigum eftir að halda vel á spöðunum og bretta upp ermarnar og fara í þetta mál af krafti.