133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[16:26]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við erum að fjalla um gífurlega stórt mál að mínu mati, frumvarp sem á að leggja grunn að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs sem verður hinn stærsti, ekki bara á Íslandi, heldur í allri Evrópu.

Við erum að tala um að stærð þess lands er 13% af yfirborði Íslands og við erum þar með að tala um rúma 13.000 ferkílómetra af landi sem fara undir þjóðgarðinn eins og áformin eru í þessu frumvarpi, ef samkomulag næst við landeigendur um alla þætti þar að lútandi. Það er þá hluti af landi átta sveitarfélaga sem fer þarna undir.

Þetta er stórt hagsmunamál og verður að fá mjög góða og mikla umfjöllun í þinginu. Ég veit að umhverfisnefnd mun leggja mikið á sig til að skoða þetta mál. Fram hefur farið mikil undirbúningsvinna og mikil gögn liggja að baki tillögum þeim sem endanlega eru komnar inn í frumvarpið.

Það er líka gert ráð fyrir því að leggja heilmikið af peningum úr ríkissjóði til þess að byggja upp þjónustu við þjóðgarðinn og við ferðamenn sem koma til með að nýta hann. Í umsögn fjármálaráðuneytisins með þessu frumvarpi er tekið fram að einungis stofnkostnaðurinn verði 1,1 milljarður og þar af eru 740 millj. kr. ætlaðar til þess að byggja nýjar gestastofur ásamt því að endurbæta gestastofuna í Skaftafelli.

Einnig verða byggðar 11 aðrar starfsstöðvar landvarða og síðan er gert ráð fyrir tæplega 300 millj. kr. til að gera göngustíga, verndaráætlanir, deiliskipulag, hönnun, sýningar og annað sem til þarf til að þessi þjóðgarður geti staðið undir nafni og orðið okkur Íslendingum til sóma þar sem við ætlum að reka hann með þeim hætti að við fáum hingað marga ferðamenn til að skoða okkar frábæra land, ekki síst þennan þjóðgarð. Fyrirtækið Rannsókn og ráðgjöf ferðaþjónustunnar gerði rannsókn á aðsókninni og við megum búast við því að með því að þessi þjóðgarður verði til sem heild, Vatnajökulsþjóðgarður, þessi stóri þjóðgarður, komi 32.000 fleiri ferðamenn til landsins vegna hans. Þeim mundu þá fylgja til landsins 4 milljarðar kr.

Þetta hefur heilmikið að segja. Við höfum oft fjallað hér um að við þyrftum að auka þjónustu og afþreyingu fyrir ferðamenn og þarna er verið að leggja til gífurlega mikið í þá veru. Ég sem landsbyggðarþingmaður legg mikla áherslu á að þetta fjármagn verði að sem mestum hluta eftir á landsbyggðinni þar sem það yrði til atvinnuuppbyggingar þar. Það hefur verið reiknað út að af þessum 4 milljörðum yrði mjög stór hluti eftir á landsbyggðinni sem við hljótum að fagna sem erum hlynnt atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni með þessum hætti.

Þjóðgarðar eru ákveðin tegund landnýtingar og eins og ég sagði er þarna mjög stór hluti Íslands lagður undir þennan þjóðgarð. Það skiptir líka verulega máli að þeir sem á landsbyggðinni búa geti haft af þessu atvinnu og þetta muni nýtast til uppbyggingar landsbyggðarinnar.

Ég átti þess kost að sitja í þingmannanefndinni svokölluðu sem kom með grunninn að þeim tillögum sem hér eru orðnar að frumvarpi. Hér hafa margir aðrir komið að málum. Ég hafði mjög mikla ánægju af því að vinna í þessari nefnd og taka þátt í störfum hennar með öðrum ágætum þingmönnum. Við höfðum mjög mikið samráð við umhverfissamtök, ferðamálasamtök, heimamenn, sveitarstjórnarmenn og alla þá sem við gátum ímyndað okkur að hefðu skoðun á því með hvaða hætti við ættum að byggja upp Vatnajökulsþjóðgarð.

Eitt af því sem við lögðum til og lögðum mjög ríka áherslu á í vinnu okkar var að stjórnun heimamanna væri eitt af þeim lykilatriðum sem skiptu máli til þess að uppbyggingin yrði sem mest og best. Það eru heimamenn sem hafa besta sýn á það með hvaða hætti er hægt að nýta þjóðgarðinn fyrir ferðamenn og til atvinnuuppbyggingar. Þess vegna varð meðal tillagna okkar í þeirri nefnd að heimamenn kæmu svona sterkt inn í svæðisráðin sem hér eru lögð til.

Auðvitað skiptir líka máli að ferðamálasamtök og umhverfisverndarsamtök komist að með sjónarmið sín. Ég tel þetta mjög farsæla lendingu sem kemur fram í frumvarpinu um það hvernig stjórnskipuninni verði háttað.

Við þingmenn töldum að það væri mjög til farsældar fallið ef þingmenn ættu aðild að stjórn þjóðgarðsins en ég sé í þeim tillögum sem hér liggja fyrir að á það hefur ekki verið fallist. Mig minnir að við höfum lagt til að einir fjórir þingmenn ættu aðild að yfirstjórn þjóðgarðsins. Ég held að ég beini því til umhverfisnefndar að hún íhugi það en ætla ekki að hleypa málunum í þann farveg að það skipti meginmáli. Auðvitað skiptir mestu máli að það náist mikil samstaða og sátt um það hvernig stjórnuninni verði háttað. Ég held að sú niðurstaða sem hér náðist sé fín, ég get fullkomlega sætt mig við hana og treysti því að þetta fólk verði vel til þess fallið að stýra því stóra svæði sem hér um fjallar.

Eins og hér hefur komið fram er stuðst við flokkun IUCN, Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna, sem lögðu okkur til grunn að flokkunarkerfi því sem er reiknað með að verndarstig þjóðgarðsins fari eftir. Þar er reiknað með að hluti svæðisins verði friðlýstur, einkum til verndar vistkerfum og til útivistar. Þar er eins og m.a. svæðið í Jökulsárgljúfrum.

Þar eru önnur svæði sem eru friðlýst, einkum til verndar tegundum, búsvæðum og vistkerfum. Í þriðja lagi eru friðuð svæði sem er stjórnað, einkum til varðveislu landslags og fyrir útivist. Að síðustu eru einkum svæði sem er stjórnað fyrir sjálfbæra nýtingu náttúrulegra vistkerfa. Allt skiptir þetta máli og öll þessi flokkunarstig rúmast innan þessa stóra svæðis sem fellur undir Vatnajökulsþjóðgarð.

Eins og ég sagði tel ég hér um mjög merkilegt mál að ræða, mál sem snertir mjög marga. Þess vegna lýsi ég yfir miklum stuðningi við þetta mál. Ég legg hins vegar mjög mikla áherslu á að umhverfisnefnd fari mjög rækilega yfir öll þau gögn sem hér eru á bak við og kynni sér afstöðu þeirra sem þjóðgarðurinn muni helst snerta. Enn og aftur tek ég fram að auðvitað eru það þeir sem næst svæðinu búa og það á að taka mjög mikið tillit til sjónarmiða þeirra.

En þjóðhagslega mun þetta líka skipta okkur mjög miklu máli og í seinni tíð hafa menn farið að sýna landinu miklar tilfinningar, og til allra þessara sjónarmiða verður auðvitað að horfa þegar menn komast að niðurstöðu í umhverfisnefnd.