133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[16:40]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til að byrja með vil ég taka fram að þó svo að sveitarstjórnir tilnefni í svæðisráðin er ekkert sem kveður á um hvar þeir skuli vera búsetufastir.

Það má alveg eins gera ráð fyrir að sérfróðir aðilar verði fengnir af einhverjum sviðum, t.d. landfræðingar eða einhverjir sem hafa sérkunnáttu á sviði þjóðgarða. Jafnvel menntað ungt fólk sem er að koma heim til héraðs til að nýta menntun sína úti á landsbyggðinni. Ýmislegt er hægt að hugsa sér í því samhengi.

Það er eins með fulltrúa umhverfisráðuneytisins, þar sem gert er ráð fyrir að ráðherra skipi tvo án tilnefningar, að ég legg nú eiginlega meiri áherslu á að horft sé faglega á þá hluti, hvaða bakgrunn þeir aðilar hafa, heldur en búsetufestu þeirra og lögheimili. Það held ég að skipti ekki meginmáli.

Meginmálið er að í stjórn slíks þjóðgarðs komist að sem flest sjónarmið. Ég held að við ættum að geta borið gæfu til þess og að þeir sem ráða málum, væntanlega í umhverfisráðuneytinu, geti horft til þess að sem flest og best sjónarmið komist að í stjórn þjóðgarðsins. Ég ber engan sérstakan kvíðboga fyrir því að þetta takist ekki vel.