133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[17:49]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Umræðan sem hér hefur farið fram hefur verið um margt athyglisverð. Ég gleymdi eiginlega í ræðu minni áðan að nefna nokkur atriði sem mig langar að tæpa á í lok umræðunnar. Úr því að ég er komin með orðið og hv. þm. Halldór Blöndal rétt farinn úr ræðustóli, langar mig til að segja í tilefni orða hans að eins og kom fram í ræðu minni áðan erum við sem hér höfum talað sammála um nauðsyn þess að heimamenn gegni lykilhlutverki í stjórn þess þjóðgarðs sem hér um ræðir alveg eins og við erum hlynnt því að heimamenn gegni yfir höfuð lykilhlutverki í umsýslu friðlýstra svæða úti um allt land. Ég vil leyfa mér að fullyrða, af því að mér er um það kunnugt, að náttúruverndarsvið Umhverfisstofnunar hefur leitast við, a.m.k. á seinni árum, að koma málum svo fyrir að unnið sé að friðlýsingum svæða í sátt við heimamenn. Ég held að hæstv. umhverfisráðherra geti verið mér sammála um að þar hafi vel tekist til. Við getum talað í þeim efnum t.d. um friðlandið á Hornströndum þar sem heimamenn hafa mikilvægu hlutverki að gegna og örugglega fleiri nýleg dæmi þar sem heimamenn hafa komið með afgerandi hætti inn í umsýslu friðlýstra svæða. Ég held að tortryggni hv. þm. Halldórs Blöndals varðandi þetta, og þess sem kom fram áðan í andsvari hjá hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur, sé í rauninni tilefnislaus. Hún hafi ef til vill átt rétt á sér fyrir nokkrum árum, um það skal ég ekkert segja. Ég veit þó og við þekkjum það öll að um friðlýst svæði hafa staðið deilur, ekki hvað síst í kringum Mývatn og á Laxársvæðinu. Þær deilur, held ég, að hafi á endanum leitt til þess að friðlýsta svæðið í kringum Mývatn og Laxársvæðið var minnkað talsvert. Lögum um það var breytt og ég held að það hljóti að hafa orðið til sátta á því svæði. Ég veit til þess að Umhverfisstofnun hefur lagt sig fram um að virkja heimamenn inn í slíka vinnu og ég sé ekki annað en að þar sem ég þekki til hafi það tekist afarvel.

Mér finnst eins og hv. þingmönnum sem talað hafa fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins sé það mikið í mun að opinberar stofnanir komi hvergi nálægt. Mér finnst það ekki eðlilegt sjónarmið á þeim sama tíma og við erum að reyna að efla fagmennsku í einu og öllu. Við verðum auðvitað að átta okkur á því að kunnáttan og fagmennskan í náttúruvernd liggur hjá því starfsfólki sem hefur sinnt þeim málum fyrir okkur og fyrir hönd þjóðarinnar fram að þessum degi. Við skulum því bara átta okkur á því að hér þarf samstarf og velvilja allra aðila og ég er þess fullviss að samstarfsvilji sé til staðar á báða bóga, í öllu falli meðan annað er ekki leitt í ljós. Ég tel ekki þörf á að hafa hér uppi orð um að menn fari að óttast það fyrir fram að hér verði eitthvert valdatafl eða einhver yfirgangur af einhverra hálfu.

Ég held að fjármunir þessa væntanlega þjóðgarðs sem aðeins hefur borið á góma í umræðunni hljóti að þurfa að koma til skoðunar í umhverfisnefnd. Mig langar til gamans, vegna þess að ég rakst á það í blöðum mínum þegar ég var að undirbúa mig undir þessa ræðu, að minnast á málþing sem haldið var á Höfn í Hornafirði í nóvember 2001, um þjóðgarðinn Vatnajökul, sem var afar athyglisvert málþing og virkilega gaman að taka þátt í því — reyndar var undirtitill á yfirskriftinni: Þjóðgarðurinn Vatnajökull — nútímaþjóðgarður. Ég held að eins og við höfum lýst í ræðum okkar sjáum við öll fyrir okkur nútímalegan þjóðgarð. Árni Bragason, forstöðumaður náttúruverndarsviðs Umhverfisstofnunar, sagði frá því að ef reiknaðar væru til núvirðis árið 2001 fjárfestingarnar sem settar voru í þjóðgarðinn í Skaftafelli þegar hann var stofnaður árið 1956 næmu þær 130 millj. kr. Það er dálítið athyglisvert og ég bið hæstv. umhverfisráðherra að leggja við hlustir, 130 millj. kr. í Skaftafell á sínum tíma. Það er nokkuð mikið og við þurfum að athuga það að við getum ekki verið eftirbátar þeirra manna sem tóku hina stórhuga ákvörðun um Skaftafellsþjóðgarð á sínum tíma. Við þurfum því að tryggja að hér verði vel að verki staðið hvað varðar fjármunina og tryggt verði að fjármagn til rekstrar verði nægilegt til þess að um nútímalegan þjóðgarð verði að ræða, þjóðgarð af því kalíberi sem við í ræðum okkar höfum lýst og höfum viljað sjá fyrir okkur.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon minntist á það í umræðunni að Kreppu væri ekki getið í textanum í greinargerð frumvarpsins, eins og hún hefði horfið úr greinargerð frumvarpsins því að hún er greinilega í greinargerð hópsins sem vann skýrsluna frá því í nóvember árið 2006, þ.e. skýrslu ráðgjafarnefndarinnar. Mig langar til að vitna í skýrslu iðnaðarráðherra sem birtist á þskj. 504 í 398. máli á síðasta löggjafarþingi. Iðnaðarráðherra fjallaði í skýrslu þeirri um framlög til byggðaáætlunar fyrir árin 2002–2005. Þar er getið um Vatnajökulsþjóðgarð og sagt frá því að í janúar sl., sem hefur trúlega verið janúar 2005, hafi verið samþykkt í ríkisstjórninni að tillögu umhverfisráðherra að vinna áfram að undirbúningi og stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs á grundvelli tillagna þeirrar nefndar sem um hefur verið rætt. Í skýrslu iðnaðarráðherra eru greinilega talin upp landsvæði sem tillögurnar gera ráð fyrir, þ.e. „að svæði þjóðgarðs norðan Vatnajökuls nái frá vatnaskilum á Vatnajökli í suðri til Tungnársvæðis vestan jökuls og nái yfir Vonarskarð, Tungnafellsjökul, meginhluta Ódáðahrauns, Jökulsá á Fjöllum ásamt helstu þverám, eins og Kreppu, …“ Og þar er hún nefnd. Ég held að það hafi bara verið einhver lapsus sem geri það að verkum að í greinargerð ráðuneytisins — eða ég vona það í öllu falli að það hafi ekki verið með ráðum gert að taka Kreppu undan í upptalningunni þar af því að menn hyggist veita Kreppu í uppistöðulón Kárahnjúkavirkjunar. Ég held að það sé alveg á hreinu að um einhver mistök er að ræða en þetta verður auðvitað skoðað.

Það sem mig langar svo að nefna að lokum, hæstv. forseti, er niðurlagskafli ráðgjafarnefndarinnar í skýrslu frá nóvember 2006. Þar segir frá því að nefndin hafi átt fund með fulltrúum álrisans Alcoa og Landsvirkjunar en þeir aðilar hafi lýst vilja til að leggja fram umtalsverðan stuðning til Vatnajökulsþjóðgarðs ákveði íslensk stjórnvöld að stofna þjóðgarðinn.

Hæstv. forseti. Mér þykir það ekki góð vinnuregla þegar um er að ræða deilumál af því tagi sem við höfum gengið í gegnum á seinni árum, Íslendingar, í átökunum um Kárahnjúkavirkjun og álbræðslu á Reyðarfirði, að gera okkur það — sem höfum tekið virkan þátt í þeim slag sem um umrætt land hefur staðið — að gera Alcoa og Landsvirkjun svona hátt undir höfði í plöggunum að skilja megi á hæstv. ráðherra að það sé bara athugasemdalaust af hans hálfu að Alcoa geti komið hér að með umtalsverðar fúlgur. Við vitum að Alcoa hefur nú þegar lagt fram fjármuni og það hefur verið gagnrýnt verulega að það hafi verið gert. Við þekkjum tilhneigingu stórfyrirtækja til að kaupa sér græna kápu, hvítþvo sig af mengandi starfsemi sinni á þessum nótum. Ég held að við Íslendingar hljótum að verða að ganga á undan með góðu fordæmi, hvað svo sem um það má segja að slík stórfyrirtæki gisti okkar land. Allar þær deilur sem um það standa eru okkur kunnar. Ég held að við verðum að halda löggjöfinni og okkar opinberu þjóðgörðum hreinum og tærum og halda stórfyrirtækjum frá þeim. Við höfum nægilegt fjármagn milli handanna. Við höfum nægilega sjóði til að grípa til þannig að við getum staðið vel að þjóðgörðunum okkar og friðlýstu svæðunum. Við þurfum ekki að leita til Alcoa til að stofna Vatnajökulsþjóðgarð. Ég treysti því að Alþingi Íslendinga og hæstv. umhverfisráðherra verði mér sammála í þeim efnum og við getum alveg sagt Alcoa að þeir geti gert eitthvað annað við peningana sína.

Að lokum vil ég tryggja að hæstv. umhverfisráðherra svari í lokaræðu sinni við niðurlag umræðunnar einhverju um sýn hennar varðandi stjórnsýslumálin sem borið hefur á góma. Ég hefði viljað spyrja hvað hún sæi um stöðu og stjórnsýslu þjóðgarða og friðlýstra svæða til framtíðar litið. Ég held að fengur væri að því að fá svar frá hæstv. ráðherra í lokaræðu hennar um þau mál.