133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[18:00]
Hlusta

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það sem gerir óhjákvæmilegt að standa upp eru þau ummæli hv. 8. þm. Reykv. n., Kolbrúnar Halldórsdóttur, að við sjálfstæðismenn séum á móti stofnunum en það sé verið að tala um fagmennsku. Eins og fagmennska sé ekki til úti á landi.

Er ekki Helgi Hallgrímsson á Egilsstöðum fagmaður? Er ekki Hörður Kristinsson grasafræðingur fagmaður? Og er ekki Árni Einarsson, forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn, fagmaður? Auðvitað er hann fagmaður.

Það sem hins vegar er rétt hjá hv. þingmanni er að ég hef viljað styrkja það að þessir hámenntuðu menn hafi starfsskilyrði og starfsgrundvöll úti á landi og hef barist fyrir því í fjöldamörg ár að þeir draumar og þær sýnir sem voru á bak við stofnun Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn gætu ræst. Þeir segja gjarna Mývetningar að þeir vildu að þessi stofa, náttúrurannsóknastofan, yrði sýnileg, hún yrði opin almenningi. Talað var um það þegar hún var sett á stofn að hún ætti að styðja við bændur í byggðinni, styðja við byggðina, rannsaka vatnið, bæði frá vísindalegu sjónarmiði og líka til gagns fyrir þá sem búa við vatnið.

Það er þetta sem ég er að tala um. Þegar við setjum á stofn þjóðgarð norðan Vatnajökuls erum við um leið að tala um að þær rannsóknir og sú fagvinna sem tengist þjóðgarðinum eigi höfuðstöðvar sínar innan þjóðgarðsins, á því svæði norðan Vatnajökuls. Það er sú fagmennska sem við viljum tala um.