133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[18:04]
Hlusta

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er von að hv. þingmaður byrsti sig. Hún var áðan að tala um að við vildum ekki fagmennsku, sjálfstæðismenn. (KolH: Ég sagði það aldrei.) Það var það orð sem hv. þingmaður notaði. Ég vísa því heim til föðurhúsanna og það getur nú vel verið að ýmsir hafi áhuga á náttúruvernd aðrir en Vinstri grænir. Á hinn bóginn er það svo að það er rétt hjá þingmanninum að ég hef aldrei verið talsmaður þess að stofnanir sem tengjast náttúrurannsóknum á Norðurlandi eigi að vera hjálendur stofnana í Reykjavík.

Þó að hv. þingmaður tali um það og geri lítið úr því að ég vilji sarga í sundur æðarnar á þessum höfuðstöðvum fyrir sunnan, þá vil ég gera það. Ég vil að þessar stofnanir séu sjálfstæðar og starfi á eigin forsendum og á eigin vegum. Það er af þeim sökum sem ég hef í öll þessi ár, fyrir daufum eyrum, krafist þess að Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn yrði styrkt. Það er nú svo einfalt.

Fyrir framan mig er flokksbróðir hv. þingmanns frá Akureyri. Ég hygg að hann sé sammála mér að stofnun Vilhjálms Stefánssonar væri ekki það sem hún er í dag ef hún væri hjálenda frá stofnun Sigurðar Nordals í Reykjavík. Þannig getum við auðvitað haldið áfram.

Ég minnist þess þegar Sigmundur Guðbjarnason háskólarektor ræddi við mig um stofnun Háskólans á Akureyri að þá sagði hann: „Grundvallaratriði er að háskóli á Akureyri sé ekki útibú frá Háskóla Íslands.“ Hið sama á við að einhvern náttúrufræðistofa á Akureyri er hvorki fugl né fiskur ef henni er stýrt frá Reykjavík. Hvorki fugl né fiskur. Slíkar stofnanir verða að vera sjálfstæðar úti á landi, óháðar þessum stofnunum hér, og heyra beint undir ráðherra og hafa sjálfstæðan fjárhag á fjárlögum eins og sjálfstæðar stofnanir geta haft.