133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[18:06]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er mikið hitamál og hv. þingmanni liggur mikið á hjarta í þessum efnum. Ég held að við hljótum samt sem áður að geta lent þessu ágreiningsmáli þar sem ég hóf mál mitt. Ég sagði það vissulega að fagmennska og kunnátta í stjórnsýslu og umsýslu friðlýstra svæða lægi hjá þessari opinberu stofnun hér fyrir sunnan. (Gripið fram í.) Já, það var það sem ég sagði. Ég var ekki kasta rýrð á einn eða neinn með því eða segja að þar með væri það eina fólkið sem gæti annast umsýslu svona friðlýstra svæða af því að það er ekki svo.

Mér finnst að hv. þingmaður geti ekki alhæft á þeim nótum sem hann gerir. Við erum öll sammála um að Háskólinn á Akureyri er öflug stofnun, að hluta til vegna þess að hann er sjálfstæður og hann er ekki eins og hv. þingmaður kallar, hjálenda Háskóla Íslands. En það er ekki þar með sagt að það þurfi að vera algilt yfir alla flóruna, sama hvar við berum niður, að allir þurfi að vera svo sjálfstæðir að þeir megi hvergi hafa tengsl eða bönd. Ég held að það sé þroskamerki að við getum unnið saman. Það er þroskamerki í pólitíkinni að geta unnið saman, þvert á ólík sjónarmið, og náð málamiðlun og sáttum um hluti. Ég held að það sé líka þroskamerki í stofnanaflórunni ef hægt er að vinna og hafa opið og skapandi samstarf á milli stofnana, grasrótanna og heimamanna og þeirra sem verkin vinna. Ég held að okkur sé sómi að því að vinna þannig og ég treysti því að þannig verði unnið varðandi Vatnajökulsþjóðgarð.