133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[18:19]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þeir bæta um betur þingmenn Vinstri grænna, draga inn í umræðuna Háskólann á Akureyri og Vaðlaheiðargöng. Það vill nú svo til að Háskólinn á Akureyri hefði yfir höfuð ekki komist á stofn nema með stuðningi og sérstakri framgöngu sjálfstæðismanna og vil ég í því samhengi sérstaklega nefna hv. þm. Halldór Blöndal. Það hafa satt að segja ekki aðrir þingmenn unnið betur að því að tryggja Háskólanum á Akureyri fjármagn og staðið betur við bakið á Háskólanum á Akureyri en þingmenn Sjálfstæðisflokksins og ég nefni enn og aftur hv. þm. Halldór Blöndal. Þetta á því ekki við nokkur einustu rök að styðjast og er mjög undarlegt inn í umræðuna um Vatnajökulsþjóðgarð.

Hvað varðar Vaðlaheiðargöng þá er það eitt af því sem við erum að vinna að og það mun sjást í samgönguáætlun þegar hún kemur fram. En sú ágæta samgönguframkvæmd, sem auðvitað skiptir mjög miklu máli fyrir okkar góða kjördæmi, á kannski ekki akkúrat heima í umræðunni um Vatnajökulsþjóðgarð sem er mjög gott mál og við höfum lýst eindregnum stuðningi við. En þessi málflutningur er satt að segja algerlega hreint með eindæmum og ég er mjög hissa á því að hv. þingmaður skuli draga þetta svona fram og nefna okkur sjálfstæðismenn í því samhengi, að við höfum eitthvert samviskubit út af Vatnajökulsþjóðgarði, út af Vaðlaheiðargöngum og Háskólanum á Akureyri. Þetta er satt að segja fráleitur málflutningur, hæstv. forseti.