133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[18:41]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir þessa yfirferð. Ég held að hún hafi svarað allflestum af þeim fyrirspurnum sem ég kom fram með í ræðu minni. Hún hefur svarað á jákvæðan hátt hlutum sem ég hafði áhyggjur af, svo sem um ferðir um jökul og ekki síst um að öll Jökulsá á Fjöllum verði innan friðlýsts svæðis, sem skiptir gífurlegu máli.

Ég er hins vegar svolítið hugsi yfir svarinu varðandi það sem hún segir í kaflanum um að friðlýsingin komist á með reglugerð, eitthvað á þá leið að í þetta sinn verði lagt fram sérstakt frumvarp um svo stóran þjóðgarð og það þurfti að ná sátt um stjórnskipan þjóðgarðsins. Þó verði gert ráð fyrir faglegri aðkomu Umhverfisstofnunar. Þetta svar upplýsir mig um að þessi mál, varðandi stjórnskipan þjóðgarðsins, hafi verið meira hitamál en ég gerði mér grein fyrir. Ég fer að skilja viðbrögðin sem orðið hafa í andsvörum í þessum sal, sem ég á tímabili skildi bara ekki nokkurn skapaðan hlut í. En þetta munum við skoða og ræða um við þá sem að koma í nefndinni.

En ég vil samt koma á framfæri, virðulegi forseti, ábendingum sem Mörður Árnason vildi koma á framfæri og sem við höfum skoðað. Núna þegar búið er að ákveða að þetta verði allt sérsvæði og heyri undir ráðherra, þá setur ráðherra bæði reglugerð um verndaráætlanir, þau mál sem verða kærð og svo á að kæra til ráðherra.

Ég hvet ráðherrann til að skoða þetta ákvæði. Venjulega eru það úrskurðir stofnana sem eru kærðir til ráðherra þannig að ég ímynda mér að þarna hafi einhver mistök orðið hjá ráðuneytinu. Að öðru leyti þakka ég ráðherra fyrir ágæt svör.