133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[18:45]
Hlusta

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég sagði í ræðu minni áðan hef ég lagt upp úr því að Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn tengist þjóðgarðinum og verði efld. Ég tel að það yrði miður ef þessi breyting yrði til þess að stýfa hana í staðinn fyrir að styrkja hana með því að setja á fót það sem hér er kallað gestastofa eða eitthvað þvílíkt án tengsla við náttúrurannsóknastöðina. Ég álít að það sé einmitt kjörið tækifæri nú til að efla þar starfsemi og hafa þar miðstöð vísindastarfsemi og rannsókna á þjóðgarðinum norðan Vatnajökuls og bið hæstv. ráðherra að íhuga það.

Í annan stað held ég að það sé út fyrir sig mjög gott að rúmur milljarður skuli ætlaður til að byggja upp þá þjónustu sem lýst er í greinargerð frumvarpsins og hæstv. ráðherra kom að. En það sem ég vék hins vegar að í ræðu minni var að nauðsynlegt er að fylgja því eftir um leið, verði þessi þjóðgarður stofnaður og Alþingi samþykkir hann, að það hljóti að vera óhjákvæmilegt að veita nægilegt fé til vegagerðar innan þjóðgarðsins og að menn trúi því að hugur fylgi máli. Ég nefndi í því sambandi að óhjákvæmilegt væri að nægilegt fé yrði í samgönguáætlun til að hægt yrði að ljúka veginum frá hringvegi niður í Kelduhverfi með Jökulsá á Fjöllum. Ég held að við hljótum að verða að sameinast um það því að það er í samræmi við markmið hæstv. samgönguráðherra þegar hann talar um þjóðgarða í kjördæmi sínu.