133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[18:51]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er komið á hreint milli mín og hv. þingmanns varðandi Jökulsá á Fjöllum þannig að ég ætla ekki að endurtaka það. En ég vil nefna það sem ég kom inn á áðan að til viðbótar hinum upphaflegu mörkum þjóðgarðsins sem menn ætla að leggja af stað með og gerð er grein fyrir á bls. 11 í greinargerðinni sem ég nefndi áðan, þá eru fleiri hugumstórir en hv. þingmaður og vilja sjá þjóðgarðinn stærri þegar upp er staðið. Gerð er grein fyrir því á bls. 11 í athugasemdum við frumvarpið hvaða önnur svæði hafa verið nefnd sem hugsanleg viðbót síðar. Þar er talað um eftirtalin svæði: Norðursvæði: Ódáðahraun og Herðubreiðarfjöll, efsti hluti Suðurár og Suðurárbotnar. Austursvæði: Brúaröræfi og svæði á Jökuldalsheiði. Suðursvæði: Fjalllendi við Hoffellsjökul og Jökulsárlón. Vestursvæði: Nær öll jaðarsvæði Vatnajökuls, þ.e. frá Núpsstaðaskógum til Veiðivatnasvæðisins, eftir atvikum mismunandi langt frá jökli. Síðan segir að rætt hafi verið við flesta eigendur þessara landsvæða en þær viðræður eru á frumstigi.

Það sem ég vildi árétta með þessu er, eins og kemur fram í athugasemdunum, að við erum mörg hugumstór. Það er ákveðið svæði sem lagt er af stað með sem grundvöll að stofnun þjóðgarðsins og síðan stefnir hugur okkar til þess að svæðið verði enn stærra þegar fram líða stundir en það byggir á samningum við landeigendur.