133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

úrvinnslugjald.

451. mál
[18:54]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Frumvarp það sem ég mæli hér fyrir felur í sér breytingar á nokkrum gjöldum í lögum um úrvinnslugjald. Lög þessi hafa tekið nokkrum breytingum frá því að þau voru samþykkt árið 2002 en vegna efnis laganna var gert ráð fyrir því frá upphafi.

Í frumvarpi þessu eru í fyrsta lagi lagðar til breytingar til lækkunar á upphæðum úrvinnslugjalds á umbúðir úr pappa, pappír og plasti og á olíuvörur, prentliti og hjólbarða. Endurskoðun þessari er ætlað að draga úr sjóðsmyndun sem átt hefur sér stað í þessum flokkum, en reynslan hefur sýnt að kostnaður vegna meðhöndlunar þessa úrgangs er lægri en menn reiknuðu með þegar gjöldin voru sett á.

Hvað varðar úrvinnslugjald á umbúðir úr pappa og pappír legg ég til að gjaldið lækki úr 10 kr. á kg í 7 kr. á kg og að úrvinnslugjald á umbúðir gerðar úr plasti lækki úr 10 kr. á kg í 3 kr. á kg. Helsta ástæðan fyrir að lögð er til mismunandi lækkun eftir umbúðategundum er að innsöfnun á umbúðum úr pappa og pappír fór mun betur af stað en innsöfnun á plastumbúðum sem leiðir til að minna hefur verið greitt út af sérgreindum sjóði vegna plastumbúða. Helsta ástæða fyrir að innsöfnun fer misvel af stað er að innsöfnunarkerfi fyrir pappa og pappírsumbúðaúrgang er til staðar hjá mörgum söfnunarstöðum sveitarfélaga en aftur á móti lítil sem engin innsöfnunarkerfi til staðar fyrir plastumbúðaúrgang. Til að örva innsöfnun á pappa- pappírs- og pastumbúðum hefur Úrvinnslusjóður hækkað endurgjald til þjónustuaðila til að hvetja þá til að leggja enn meiri áherslu en nú til að ná árangri í söfnun á þessum flokkum úrgangs.

Einnig eru lagðar til breytingar til lækkunar á upphæð úrvinnslugjalds á olíuvörum úr 14,50 kr á kg í 13 kr. á kg, lækkun á prentlitum úr 34 kr. á kg í 25 kr. á kg og að lokum lækkun á úrvinnslugjaldi á hjólbörðum úr 20 kr. á kg í 15 kr. á kg. Endurskoðun þessi á gjöldum er, eins og komið hefur fram, til þess fallin að draga úr þeirri sjóðsmyndum sem átt hefur sér stað í þessum flokkum.

Í öðru lagi eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á álagningarstofni úrvinnslugjalds á umbúðir úr pappa, pappír og plasti. Leiðrétta þarf álagningarstofninn og er markmiðið með þeim breytingum að laga álagningarstofn gjaldsins að nýrri og nákvæmari upplýsingum um magn umbúða sem berst til landsins og gera hann þannig sanngjarnari gagnvart innflytjendum vara. Þar sem fjöldi breytinga sem lagðar eru til í viðauka XVIII er mikill er viðaukinn allur lagður fram að nýju í frumvarpi þessu.

Frú forseti. Frá því að frumvarp þetta var lagt fram á Alþingi hefur tollskránni verið breytt umtalsvert. Þessar breytingar á tollskrá sem tóku gildi um áramót leiða til þess að fjöldi tollnúmera sem mynda álagningarstofn úrvinnslugjalds hefur breyst frá því að frumvarpið var lagt fram. Úrvinnslusjóður hefur í samvinnu við tollyfirvöld unnið að endurskoðun á áðurnefndum viðauka XVIII við frumvarpið og munu þær tillögur verða lagðar fyrir hv. umhverfisnefnd og vona ég að hún geri þær að sínum.

Hvað varðar gildistökuákvæði í frumvarpi þessu óska ég eftir að hv. umhverfisnefnd taki það til skoðunar að seinka gildistöku laganna til 1. mars 2007, þ.e. að þau taki gildi á sama tíma og samþykkt breyting til lækkunar á virðisaukaskatti á matvæli. Er það til mikillar einföldunar fyrir tollyfirvöld svo og atvinnulífið að þessar breytingar eigi sér stað á sama tíma.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. umhverfisnefndar að lokinni þessari umræðu.