133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

kaup Íslandspósts hf. á Samskiptum ehf.

460. mál
[10:34]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Í samþykktum Íslandspósts hf. þar sem kveðið er á um tilgang og hlutverk félagsins er félaginu m.a. heimilt að standa að stofnun eða gerast eignaraðili að öðrum félögum, svo sem að stofna félag eða félög sem alfarið verða í eigu þess til að annast ákveðna þætti í starfsemi þess. Hlutverk félagsins er að veita áreiðanlega þjónustu fyrir fyrirtæki og einstaklinga á sviði dreifingar, samskipta og flutningalausna, svo og öðrum sviðum sem tengjast starfsemi þeirra.

Íslandspóstur hf. er rekinn sem hvert annað hlutafélag og er meiri hluta af tekjum félagsins aflað á samkeppnismarkaði hins vegar. Lögum samkvæmt er skýr bókhaldslegur aðskilnaður milli þess hluta í rekstri félagsins sem bundinn er einkarétti í póstþjónustu og hinum sem rekinn er í samkeppni. Stjórnendur félagsins líta á það sem starfsskyldu sína að tryggja viðgang og vöxt félagsins með hagsmuni viðskiptavina og eigenda og ekki síst starfsmanna að leiðarljósi. Í samræmi við samþykktir félagsins hafa stjórnendur Íslandspósts unnið markvisst að því undanfarin ár að mæta kröfum viðskiptavina um aukna þjónustu.

Rekstur Íslandspósts hf. hefur gengið vel undanfarin ár. Félagið var áður fyrr rekið með tapi en hagnaður hefur verið á rekstrinum síðastliðin ár og nam hann á liðnu ári um 250 millj. kr. Hagnaður félagsins er að hluta greiddur í arð til eigandans, ríkissjóðs, en að öðru leyti er honum varið til uppbyggingar félagsins í þeim tilgangi að bæta þjónustu og styðja við aukinn vöxt og arðsemi. Þessi árangur hefur náðst þrátt fyrir tiltölulega lág póstburðargjöld en þau eru með því lægsta sem þekkist í nágrannalöndum þrátt fyrir óhagstæð dreifingarskilyrði í okkar stóra, dreifbýla landi.

Samskipti ehf. veitir margþætta heildarþjónustu sem ýmist er unnin að hluta eða að fullu hjá fyrirtækinu sjálfu. Þar má nefna ljósritun og útprentun vinnuteikninga, uppsetningu og frágang kynningarefnis og fleira eins og fram kom í máli fyrirspyrjanda. Starfsemi þessi er mjög á því sviði sem ýmis fyrirtæki á póstmarkaði hafa í vaxandi mæli sinnt á undanförnum árum bæði í Evrópu og Norður-Ameríku. Samkvæmt upplýsingum frá Íslandspósti er tilgangur kaupa Íslandspósts hf. á Samskiptum ehf. margþættur og m.a. þessi: Að mæta kröfum viðskiptavina um aukna þjónustu og þá er verið að tala um landið allt. Að leita leiða til að auka hagræðingu í rekstri sem m.a. felst í því að auka nýtingu á afgreiðslu- og dreifikerfi félagsins með auknu vöru- og þjónustuframboði. Að tryggja atvinnuöryggi starfsmanna Íslandspósts með því að undirbúa félagið undir tekjusamdrátt og minnkandi markaðshlutdeild í hefðbundinni starfsemi þegar afnám einkaréttarins gengur í gildi hvað varðar árituð bréf eins og þekkt er að gert hefur verið ráð fyrir að yrði á hinu Evrópska efnahagssvæði á árinu 2009. Að auka verðmæti eignarhluta félagsins, sem auðvitað skiptir heilmiklu máli.

Í annan stað var spurt: „Hvert var umsamið kaupverð og hvernig á það að greiðast?“

Þann 27. október 2006 var undirritaður samningur um kaup Íslandspósts hf. á Samskiptum ehf. Í samningnum er kveðið á um að kaupverð sé trúnaðarmál eins og oft er raunin þegar fyrirtæki er keypt af einkaaðila. Samningurinn var gerður með fyrirvara um niðurstöðu áreiðanleikakönnunar og samþykki Samkeppnisstofnunar á því að samningurinn bryti ekki í bága við ákvæði samkeppnislaga. Af hálfu Íslandspósts var endurskoðunarfélagið fengið til þess að framkvæma áreiðanleikakönnun á rekstri Samskipta ehf. og var niðurstaða þeirrar könnunar lögð fram til 19. október 2006. Úrskurður Samkeppnisstofnunar var kynntur þann 8. desember 2006 og segir í niðurstöðu hans, með leyfi forseta:

„Með kaupsamningi 27. október 2006 eignaðist Íslandspóstur allt hlutaféð í Samskiptum ehf. Samningur þessi felur í sér samruna í skilningi 4. og 17. gr. samkeppnislaga. Samkeppniseftirlitið telur ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna þessa samruna.“

Að uppfylltum skilyrðum kaupsamnings tók Íslandspóstur hf. yfir rekstur Samskipta ehf.

Hvað varðar spurninguna hvort ríkið hafi frekari umsvif á prjónunum á sviði prentmarkaðar hefur (Forseti hringir.) samgönguráðuneytið ekki slík áform uppi og get ég komið kannski nánar að því í síðara svari mínu.