133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

kaup Íslandspósts hf. á Samskiptum ehf.

460. mál
[10:39]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta mál er allt hið undarlegasta verð ég að segja. Mér finnst mjög merkilegt að sjá ráðherra íhaldsins eða ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem hefur kennt sig við frelsi hér á landi standa hér og verja það að ríkisfyrirtæki, fyrirtæki í eigu ríkisins, fari með svo beinum hætti inn á samkeppnismarkað, eins og prentmarkaðurinn er með kaupum á Samskiptum ehf. Samskipti ehf. hefur verið öflugt fyrirtæki á prentmarkaði og að ríkisfyrirtæki skuli nú hafa keypt fyrirtækið finnst mér fyrir neðan allar hellur og stórundarleg gjörð. Mér finnst að hæstv. ráðherra þurfi að svara því miklu skýrar hvaða hagsmuni ríkið hafi af því að þetta ríkisfyrirtæki kaupi sig með jafnafgerandi hætti inn á samkeppnismarkað, vegna þess að mér finnst þessi gjörningur óverjanlegur.