133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

Suðurlandsvegur.

489. mál
[10:54]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að þetta er eitt af þeim málum sem algerlega þverpólitísk samstaða ríkir um, enda er það líklega mesta hagsmunamálið í komandi kosningabaráttu að ljúka þessu verkefni og taka ákvörðun um með hvaða hætti vegabætur á Suðurlandi verða.

Ég tek líka undir að e.t.v. er það óeðlilegt að ráðherra fari að greina frá einstökum atriðum í samgönguáætlun í fyrirspurnatíma en það styttist í að hún verði lögð fram.

Ég vil hins vegar lýsa skoðun minni og fer ekkert dult með það að ég tel að við eigum að horfa mjög til þeirrar leiðar sem Þór Sigfússon hefur boðið, að fara í einkaframkvæmd með skuggagjaldsleið. Hann hefur lýst því yfir að ljúka megi verkinu á fjórum til fimm árum. Við eigum hiklaust að skoða þessa skuggagjaldsleið því að það hraðar verkinu en léttir um leið af ákveðinni pressu gagnvart öðrum mikilvægum samgöngubótum.