133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

viðhald þjóðvega.

332. mál
[11:03]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Endingartími þjóðvega er almennt áætlaður um það bil 20 ár og á Íslandi að flestir vegir sem við keyrum 20 ára eða eldri og það hefur ekki farið fram hjá neinum í hversu slæmu ástandi vegirnir eru víða. Það er víða missig, kantar eru mjög slæmir og ég tala nú ekki um þegar brotnar upp úr vegunum og þeir eru holóttir og hrjúfir eins og víða er.

Við vitum að umferð hefur aukist alveg gífurlega. Hún hefur margfaldast á örfáum árum og þar með hafa tekjur af umferð líka margfaldast, þ.e. tekjur ríkisins. Þær hafa vaxið um 40% á síðustu þrem árum. Við vitum að það hafa orðið slys vegna ástands þjóðvega á Íslandi m.a. vegna missigs þar sem bílar hafa skoppað til í hálku og farið út af. Við vitum að flutningabílar hafa oltið út af veginum vegna þess að kantar hafa gefið sig og fleira og fleira. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra:

1. Hverjar hafa fjárveitingar til viðhalds þjóðvega verið árin 2003–2006?

2. Hver er áætluð fjárþörf til viðhalds þjóðvega næstu fimm árin?

3. Hve mikið er áætlað að viðhaldsþörf aukist vegna aukinnar þungaumferðar? Verður tekið tillit til hennar við áætlun viðhaldskostnaðar næstu fimm árin?

Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra sagði áðan í ræðustóli að það væri unnið á grundvelli samgönguáætlunar. Ég ætla að leyfa mér að mótmæla þeirri fullyrðingu og bendi á að á yfirstandandi kjörtímabili sem nú er senn að renna sitt skeið hefur verið dregið stórkostlega saman í framlögum til vegamála frá því sem vegáætlun segir til um eða samtals líklega um 6 milljarða kr. Þetta kalla ég ekki að vinna samkvæmt vegáætlun, hæstv. forseti, og tel því enn ríkari ástæðu til að spyrja ráðherra út í þessi mál.