133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

viðhald þjóðvega.

332. mál
[11:05]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Spurt er:

„Hverjar hafa fjárveitingar til viðhalds þjóðvega verið árin 2003–2006?“

Svar mitt er svohljóðandi: Til viðhalds stofn- og tengivega telst endurnýjun bundinna slitlaga, endurnýjun malarslitlagastyrkingar og endurbættar brýr, varnargarðar og veggöng, öryggisaðgerðir, umferðaröryggisáætlun, vatnaskemmdir og viðhald girðinga. Fjárveitingar til þessara verkefna á árunum 2003–2006 hafa verið eftirfarandi í milljónum króna á meðalverðlagi ársins 2006: Árið 2003 2 milljarðar 564 þús., árið 2004 2 milljarðar 535 þús., árið 2005 2 milljarðar 783 þús. og árið 2006 2 milljarðar 826 þús.

Í annan stað er spurt:

„Hver er áætluð fjárþörf til viðhalds þjóðvega næstu fimm árin?“

Í núgildandi vegáætlun, samgönguáætlun fyrir árin 2005–2008, eru fjárveitingar til viðhalds vega 3 milljarðar 14 millj. á árinu 2007 og 3 milljarðar 88 millj. á árinu 2008. Gert er ráð fyrir að tölurnar hækki í samræmi við vísitöluhækkun fjárlaga.

Í núgildandi samgönguáætlun fyrir árin 2003–2014 er fjárveitingum til viðhalds vega skipt á þrjú tímabil, 2003–2006, 2007–2010 og 2011–2014. Þar er gert ráð fyrir að fjárveitingar verði 10 milljarðar 600 millj. á árunum 2007–2010 og 11,1 milljarður á tímabilinu 2011–2014. Þær tölur eru á verðlagi fjárlaga árið 2006. Þörfin fyrir viðhaldsfé er mikil, sérstaklega til styrkinga og endurbóta á vegakerfinu og kemur það fram í þessum tölum sem hafa hækkað og er gert ráð fyrir í samgönguáætluninni að hækki enn frekar eins og kom fram í þeim tölum sem ég nefndi áður.

Í þriðja lagi er spurt:

„Hve mikið er áætlað að viðhaldsþörf aukist vegna aukinnar þungaumferðar? Verður tekið tillit til hennar við áætlun viðhaldskostnaðar næstu fimm árin?“

Svar mitt er þetta: Vegna mikillar aukningar þungaflutninga um vegi landsins hefur álag á burðarlag á vegum aukist. Aukinn þungaflutningur ásamt aukinni leyfilegri lengd flutningabíla kallar á breiðari vegi og meira rými á gatnamótum en það er rétt að taka fram að reglur á hinu Evrópska efnahagssvæði um öxulþunga voru innleiddar á árinu 1995 og því fer fjarri og fór fjarri þá að vegirnir hefðu verið byggðir upp miðað við þann leyfilega öxulþunga sem þá var innleiddur. Það er kannski vandamálið sem við erum að glíma við í dag.

Sá hluti vegakerfisins sem hefur verið með bundnu slitlagi sl. 25 ár eða um það bil frá árinu 1980, var byggður upp miðað við þær forsendur sem giltu á þeim tíma. Á fyrstu árum tímabilsins var reynt að leggja slitlag á þá vegakafla sem voru best undir það búnir hvað varðar feril í hæð og plani, burðarþoli og breidd. Markmiðið þá var að lengja bundið slitlag sem mest án þess að þurfa að framkvæma nema í litlum mæli dýra styrkingu og breikkun. Síðan var farið að leggja slitlag á verri vegarkafla og gerðar minni kröfur til plan- og hæðarlegu. Síðustu ár hefur verið hert enn frekar á kröfum til plan- og hæðarlegu vega og þær færðar meira að kröfum nágrannaþjóða okkar.

Fyrir 5 árum var tekin ákvörðun um að breikka vegina. Sumir hverjir voru, eða meginleiðir voru 6,5 metrar en síðustu 5 árin hafa þeir verið byggðir 7,5 eða 8,5 metrar og nú hefur verið ákveðið að allar meginleiðir verði byggðar í 8,5 metra breidd. Við hönnun burðarlaga hefur endingartími burðarlaga almennt verið miðaður við 20 ár og litið þannig á að eftir þann tíma þurfi að styrkja veginn. Þetta er í samræmi við það sem almennt tíðkast í nálægum löndum en álag á burðarlög og endingartími burðarlaga eru tengd hugtök. Við hönnun burðarlags vega er umferð og þá einkum þungaumferð áætluð 20 ár fram í tímann. Ef fjöldi þungra bíla sem áætlað er að fari um vegina á því ára tímabili eykst umfram það sem gert er ráð fyrir í hönnun þýðir það að endingartími burðarlagsins styttist til samræmis við það. Aukinn sléttleiki vega hefur einnig áhrif á umferðaröryggi. Forsendur sem leggja verður til grundvallar við gerð viðhaldsáætlunar hafa breyst eins og áður er lýst og það þarf því að auka fé til viðhalds verulega á næstu árum eins og gert hefur verið síðustu ár.