133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

viðhald þjóðvega.

332. mál
[11:14]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ekki veit ég hvaðan hv. þingmaður hefur þær upplýsingar að það kosti 10 milljarða að endurbyggja hringveginn. Ég hef þær upplýsingar að það kosti 15 milljarða að endurbyggja eingöngu veginn til Selfoss þannig að ég vona svo sannarlega að Samfylkingin hafi ekki mótað þá stefnu sem hér kom fram í tölum.

Stóryrði hv. þm. Jóhanns Ársælssonar um uppbyggingu vegakerfisins eru ekki ný en það verður hins vegar að segja hverja sögu eins og hún er. Ég man aldrei eftir því að hv. þingmaður hafi borið upp, hvorki í þingmannahópnum í Vesturlandskjördæmi gamla eða Norðvesturkjördæmi eða hér á Alþingi, tillögur um að auka framlög til viðhalds vega þannig að þetta er þá loksins að birtast núna. Hann er að átta sig á því að við þurfum að auka slík fjárframlög.

Eins og ég gat um í svari mínu hefur verið bætt við fjármunum í viðhaldsþáttinn en auðvitað vantar alltaf meira. Hvar vantar ekki meiri fjármuni í samfélagi okkar til þess að byggja nýtt og endurbæta? Samfélag okkar hefur vaxið svo hratt upp og fjárþörfin er svo mikil á öllum sviðum að við verðum að forgangsraða. Til dæmis greiðir umferðin miklu meira í skatta, þ.e. bíleigendur, notendur olíu og bensíns, en fer til uppbyggingar vegakerfisins. Alþingi og ríkisstjórn á hverjum tíma hefur valið þann kost að nota þetta sem skattlagningarleið. Ég hefði auðvitað viljað fá alla þá fjármuni í uppbyggingu vegakerfisins en þeir eru notaðir til annarra samfélagsmála í heilbrigðis-, mennta- og félagsmálum. Ég hef hins vegar ekki heyrt tillögur um það að hv. þingmenn Samfylkingarinnar legðu til að taka fjármuni út úr heilbrigðiskerfinu og leggja í umferðina.