133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

slys og óhöpp á Vestfjörðum.

353. mál
[11:31]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin við fyrirspurn minni. Mér þótti þau athyglisverð. Það kemur í ljós að á þessu árabili sem ég spurði um hafa 159 manns lent í óhöppum eða slysum og þar af eru tvö banaslys og sjö tilvik þar sem viðkomandi er alvarlega slasaður. Þetta undirstrikar meira en allt annað hversu nauðsynlegt er að hraða vegabótum á þessu svæði sem er svo hættulegt yfirferðar. Ég vek athygli á því að við erum í báðum tilfellum að tala um stuttar leiðir. Það er ekki nema hálftíma akstur á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur og á þessari hálftíma akstursleið verða öll þessi slys. Það er álíka löng vegalengd sem við erum að tala um milli Ísafjarðar og Súðavíkur. Þarna slasast 160 manns eða lenda í óhöppum á þessu tímabili.

Þetta sem sagt undirstrikar enn og aftur hversu hættulegar þessar leiðir eru og hversu nauðsynlegt er að fara strax í varanlegar endurbætur á þessum samgönguleiðum og það verður auðvitað ekki gert nema með jarðgöngum.