133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

þjónusta Símans á sunnanverðum Vestfjörðum.

369. mál
[11:36]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er svo margt að breytast í samfélaginu en áfram hugsar sumt fólk þannig að ríkið eigi að gera alla hluti. En hér er spurt:

Telur ráðherra að öryggi og þjónusta við íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum verði tryggt á fullnægjandi hátt ef verður af fyrirætlun Símans um að leggja niður starfsemi á Patreksfirði?

Svar mitt er svohljóðandi: Síminn er hlutafélag eins og hv. þingmenn þekkja sem starfar á samkeppnismarkaði og ber þannig réttindi og skyldur að einkarétti. Síminn er ekki lengur að neinu leyti í eigu ríkisins. Fyrirtækið þarf því ekki að gefa upplýsingar eða leita heimilda stjórnvalda til breytinga á starfsemi sinni nema skýrt sé kveðið á um það í lögum.

Þá eru ákveðnar skyldur sem hvíla á fjarskiptafyrirtækjum. Sem dæmi um slíkar skyldur má nefna 54. gr. fjarskiptalaga en þar er kveðið á um verndun almenna talsímaréttarins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Fyrirtæki sem bjóða almenna talsímaþjónustu skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir sem miða að því að almenna talsímanetið og almenna talsímaþjónustan, þ.m.t. neyðarþjónusta, rofni ekki.“

Í þessu sambandi meðal annars getur Póst- og fjarskiptastofnun sett skilyrði sem varða rekstraröryggi neta samanber 3. mgr. 6. gr. laga um fjarskipti þannig að símafyrirtækjunum eru að þessu leyti settar skorður án þess að ríkisvaldið segi til um starfsmannafjölda eða þá þjónustu sem eigi að vera til staðar. Hún er á ábyrgð fjarskiptafyrirtækjanna. En fjarskiptafyrirtækin þurfa að uppfylla þessi skilyrði.

Í annan stað er spurt:

Hvernig hyggst ráðherra tryggja eftirlits- og viðhaldsþjónustu við endurvarpsstöðvar útvarps á sunnanverðum Vestfjörðum?

RÚV er með samning við Símann samkvæmt mínum upplýsingum og ráðuneytið hefur fengið það staðfest um eftirlits- og viðhaldsþjónustu á dreifikerfi Ríkisútvarpsins. Það ættu hv. þingmenn að hafa kynnt sér allrækilega síðustu daga og kannski hefur það verið rætt hér. (Gripið fram í: Menntamálaráðherra svaraði engu.) Samkvæmt honum sér Síminn því um að tryggja eftirlit og viðhald við endurvarpsstöðvar á sunnanverðum Vestfjörðum sem og annars staðar á landinu. Það er því Ríkisútvarpsins að sjá til þess að Síminn standi við gerða samninga, og/eða sá aðili sem útvarpið semur við, og tryggi eftirlits- og viðhaldsþjónustu við endurvarpsstöðvar á sunnanverðum Vestfjörðum eins og annars staðar á landinu.

Þetta er mitt svar, virðulegur forseti. Að öðru leyti vil ég vegna ræðu hv. fyrirspyrjanda segja að sala Símans er eitt af þeim málum sem voru mikið rædd á sinni tíð. Menn töluðu mikið um að ekki mætti selja grunnnetið meðal annars þingmenn Samfylkingarinnar. Á sama tíma og í framhaldi af því var á vegum Orkuveitu Reykjavíkur verið að undirbúa það og síðan var gerð tilraun til þess engu að síður á vegum Samfylkingarinnar og þeirra sem stóðu að R-listanum að selja grunnnetið sem Orkuveitan var búin að byggja upp og selja það í hendurnar á Símanum sem fer með þetta net. Ég er sömu skoðunar og ég var áður að ég tel eðlilegt að hafa sjálft grunnnetið með þeim hætti sem við gerðum og að í því felist besta tryggingin á samkeppnismarkaði meðal annars með þeim ströngu reglum sem fjarskiptalögin setja um aðgang að netum og heimtaugum, þ.e. að það hafi verið besta tryggingin fyrir því að við fengjum eðlilega framþróun á vettvangi fjarskiptanna í okkar landi enda er staðreyndin sú að framfarir okkar í fjarskiptum hafa orðið meiri síðustu árin en er að gerast í öðrum löndum og notkun okkar á fjarskiptum, tölvum og internetinu og farsímum er meiri en hjá flestum öðrum þjóðum vegna þess hversu vel við höfum byggt upp þetta kerfi allt og ekki síst núna síðustu árin. Til fróðleiks er hægt að segja frá því að yfir 50 (Forseti hringir.) aðilar hafa leyfi til fjarskiptastarfsemi á Íslandi.