133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

greinargerð um jafnréttisáætlun.

422. mál
[11:47]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Eitt af þeim stjórntækjum sem löggjafinn hefur sett hæstv. ráðherrum í hendur til að fylgja eftir þeim málum sem hér eru samþykkt eru aðgerðaáætlanir af ýmsu tagi. Ein þeirra aðgerðaáætlana heyrir undir hæstv. félagsmálaráðherra, eflaust fleiri, en sú sem ég vil beina athyglinni að núna er jafnréttisáætlunin. Samkvæmt jafnréttisáætlun sem samþykkt var á Alþingi Íslendinga í lok maí 2004 var gerð sérstök grein fyrir því í greinargerð með tillögunni að félagsmálaráðuneytið skyldi annast eftirfylgni framkvæmdaáætlunarinnar og segir í 6. tölulið greinargerðarinnar með tillögunni, með leyfi forseta:

„Til að tryggja það að raunverulegur árangur náist við framkvæmd verkefna þeirra sem hér eru tíunduð er mikilvægt að gerð sé úttekt á árangri ríkisstjórnarinnar. Skilgreina verður á hvaða hátt þetta verður gert, en æskilegt er að slík úttekt verði gerð um mitt framkvæmdatímabilið og aftur í lok þess. Þá skal meta hvert verkefni, hvort sem því er lokið eða ekki, og leggja mat á þau áhrif sem það hefur haft.“

Um mitt tímabil sem mun hafa verið vorið 2006 hefði átt að líta dagsins ljós einhvers konar mat ráðherra eða ráðuneytisins á því hver staðan væri. Ég kannast ekki við að hafa séð slíkt. Það er ástæðan fyrir því að ég set fram þessa fyrirspurn til hæstv. ráðherra, spyr hvort þess sé að vænta að ríkisstjórnin leggi fljótlega fram greinargerð um stöðu verkefna og árangur að jafnréttisáætlun 2004–2008 í samræmi við ákvæði áætlunarinnar. Kunnara er en frá þurfi að segja að hæstv. félagsmálaráðherra vorið 2004, sem er raunar ekki sá sem hér situr heldur flokksbróðir hans, Árni Magnússon, þurfti að þola nokkrar ákúrur af hendi okkar stjórnarandstöðuþingmanna í það minnsta í umræðunni, enda var þá orðið opinbert og ljóst að ríkisstjórnin hafði staðið sig afar slælega hvað varðaði áformin sem jafnréttisáætlunin, sem átti að gilda til 2004, lagði ríkisstjórninni á herðar. Þannig stóð það enn þá út af að einhver ráðuneyti voru ekki enn þá búin að setja sér jafnréttisáætlun og hæstv. ráðherra gat ekki annað en viðurkennt að ríkisstjórnin hefði staðið sig slælega og tækin eða úrræðin sem ráðherrarnir hefðu og ráðuneytin væru kannski ekki nægilega sterk. Lofað var bót og betrun og við sem höfum reynt að fylgjast með þessum málaflokki vonumst eftir að fá að sjá árangur á þessu tímabili og þess vegna tel ég mikilvægt að þetta milliuppgjör verði lagt fram hið allra fyrsta.