133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

kaup og sala heyrnartækja.

286. mál
[12:04]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er umhugsunarefni hvernig einkafyrirtæki sem ákveða að hasla sér völl á smáum og afar sérhæfðum markaði kalla á eftirlitsstofnun sem hið opinbera verður að greiða. Þetta er bara til umhugsunar.

En spurning mín eða innlegg í þetta mál, um leið og ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrirspurnina, varðar þá staðreynd að eldra fólk sem þarf öflug heyrnartæki hefur ekki fengið heyrnartæki við hæfi í gegnum Tryggingastofnun ríkisins. Það hefur orðið að leita til einkaaðila sem selja öflugri heyrnartæki en Tryggingastofnun býður upp á og hefur þurft að borga þau fullu verði.

Af máli hæstv. ráðherra heyrðist mér að breytingu yrði komið á hvað þetta varðar og gert sé ráð fyrir því að Tryggingastofnun taki jafnt þátt í öllum heyrnartækjum og bestu tækin, sem eldra fólk þarf oft, falli þar undir. Mig langaði að fá staðfestingu á því að þessi skilningur minn væri réttur.