133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

kaup og sala heyrnartækja.

286. mál
[12:05]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ágæt svör. Ég bendi á að varðandi fyrstu spurningu mína, um jafna aðstöðu íbúa landsbyggðar og þéttbýlis, að fyrirtækið Heyrnartækni hefur komið inn í ákveðið gap í þjónustu opinberra fyrirtækja og veitt þjónustu á stöðum þar sem ekki hefur áður verið kostur á að fá slíka þjónustu.

Í svari hæstv. ráðherra kom fram að fjöldatakmörkunum á sölu heyrnartækja einkafyrirtækja var aflétt með reglugerð sem sett var um áramótin. Ég tel það hafa verið rétt skref. Það er óviðunandi að einungis hluti þeirra sem þurfa heyrnartæki njóti niðurgreiðslu hins opinbera og það ráðist af því hvort leitað er til einkaaðila eða ríkisstofnana hvort slík niðurgreiðsla fáist. Það segir þó ekki nema hálfa söguna. Um leið voru slíkar takmarkanir settar á þjónustu einkafyrirtækja á þessu sviði að það sætir undrun. Þannig mega þau ekki þjóna fólki sem uppfyllir 10 eða 11 atriði sem reglugerðin gerir ráð fyrir en slíkum faglegum skilyrðum þurftu fyrirtækin ekki að sæta áður. Í raun veita fyrirtækin takmarkaðri þjónustu nú en áður gegn því að ekki verði takmarkanir á fjölda tækja sem þau afgreiða.

Ég tel ekki nein fagleg eða málefnaleg rök fyrir því að takmarka þjónustu fyrirtækjanna eins og reglugerðin gerir ráð fyrir. Mismununin er enn gagnvart íbúum landsbyggðarinnar, þótt með öðrum hætti sé. Áður takmarkaðist hún við fjölda tækja en nú við einkenni og alvarleika heyrnarskerðingar.

Ég hlýt að benda á nefndarálit heilbrigðis- og trygginganefndar á 127. löggjafarþingi um breytingu á lögum sem heimila að veita einkaaðilum rekstrarleyfi til að annast að öllu eða hluta þjónustu sem veitt er hjá Heyrnar- og talmeinastöð. Þar var lögð áhersla á að tryggja óhlutdrægni og jafna rekstrarstöðu til hagsbóta fyrir neytendur. Reglugerð ráðuneytisins frá áramótum gerir það ekki að mínu mati og ég tel að það sé gegn stefnu ríkisstjórnarinnar.