133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

greiðsluaðlögun.

481. mál
[13:35]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Í tilefni af fyrirspurn hv. þingmanns óskaði ráðuneytið eftir afstöðu talsmanns neytenda til málsins. Í áliti hans eru sett fram ýmis sjónarmið sem full ástæða er til að hafa í huga.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja mun Ísland vera eina norræna ríkið þar sem ekki er að finna lagareglur um greiðsluaðlögun. Danmörk hefur haft slíkar reglur frá árinu 1984, Noregur og Finnland frá 1993 og Svíþjóð frá 1994.

Á Alþingi kom þetta mál einnig til umfjöllunar um svipað leyti en á þeim tíma taldi þingið rétt að láta reyna fyrst á ákvæði í lögum um nauðasamninga áður en frekar yrði rætt um sérstaka lagasetningu á þessu sviði að norrænni fyrirmynd.

Talið er dæmigert fyrir norrænu löggjöfina um greiðsluaðlögun að um sé að ræða valkost andspænis við gjaldþrotaskipti. Megintilgangur greiðsluaðlögunar er að skuldari komist út úr skuldafeninu og geti haldið áfram með líf sitt um leið og honum takist að greiða eins mikið af skuldunum og raunhæft er talið. Þannig er tekið tillit til andstæðra hagsmuna beggja, skuldara og kröfuhafa, svo og þjóðfélagsins.

Greiðsluaðlögun er gjarnan einn liður af mörgum til að koma heimilum til bjargar vegna fjárhagsvanda. Einkum er þar litið til þarfa einstaklinga sem eru í alvarlegum skuldavandræðum til að fá stjórn á fjármálum sínum. Úrræðinu er einnig ætlað að tryggja að skuldari standi við skuldbindingar sínar í þeim mæli sem mögulegt er og að skipta fjárhæð skuldara á eðlilegan hátt á milli kröfuhafa.

Rétt þykir að fara nokkrum orðum um hvort í gildandi lögum séu raunhæfir valkostir um nýja löggjöf um greiðsluaðlögun, þ.e. með gjaldþrotaskiptum eða nauðungarsamningum. Í gjaldþrotaskiptum felst að bú eða eignir skuldara eru teknar með úrskurði dómara til uppgjörs og andvirði þeirra ráðstafað eftir ákveðnum reglum milli kröfuhafa undir stjórn skiptastjóra. Því hefur verið haldið fram að gjaldþrotaskipti séu fyrst og fremst hugsuð fyrir aðila í rekstri og feli í sér sameiginlega fullnustugerð gagnvart skuldara að beiðni eins eða fleiri kröfuhafa. Tilgangur hennar er sá að kröfuhafar fái sem mesta fullnustu krafna sinna.

Í gildi eru einnig lög um réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga. Lágmarksefnisskilyrði slíkrar aðstoðar er að taldar séu líkur á að umsækjandi geti ráðið bót á fjárhagsörðugleikum sínum með nauðasamningum.

Talsmaður neytenda segir í áliti sínu að raunhæfir valkostir í gildandi lögum fyrir fólk í verulegum greiðsluerfiðleikum, eins og segir í fyrirspurninni, felist ekki í framangreindum úrræðum. Sé aftur vikið að reynslu annars staðar á Norðurlöndunum má almennt slá því föstu að greiðsluaðlögun hafi undanfarin 15–20 ár verið mikilvægt úrræði til að koma einstaklingum í hinum norrænu ríkjunum fjórum út úr greiðsluvandræðum og tryggja að þeir greiði kröfur sínar eftir raunhæfum mætti.

Hæstv. forseti. Ég vil árétta að um mjög mikilvægt mál er að ræða fyrir neytendur og heimilin í landinu. Auk þess tel ég mikilvægt að haft verði samráð um mál þetta við ýmsa hagsmunaaðila við mat á því hvaða úrræði komi helst til álita til að tryggja greiðsluaðlögun fyrir fólk í verulegum greiðsluerfiðleikum. Að slíkri vinnu þyrftu fleiri en eitt ráðuneyti að koma.

Ég er reiðubúinn að beita mér fyrir því að skipuð verði nefnd sem meti reynsluna frá öðrum norrænum ríkjum af þeirri löggjöf sem þeir hafa um greiðsluaðlögun. Við slíkt starf ber að hafa í huga að mikilvægt kann að vera að úrræði um greiðsluaðlögun séu fyrir hendi hér á landi sem unnt sé að nota svo skuldari komist út úr skuldafeninu og geti haldið áfram með líf sitt og fjölskyldu sinnar þegar sérstök og ströng skilyrði eru fyrir hendi svo sem að samrýmast reglum um fullnusturéttarfar hér á landi.

Ég tel mikilvægt að við undirbúning málsins verði horft til þess að sem einfaldast verði að sækja um greiðsluaðlögun í stað seinlegrar, flókinnar og dýrrar málsmeðferðar.

Að lokum tel ég ástæðu til að ætla að rétt sé að hafa reglur um greiðsluaðlögun í sérstökum lögum ef til lagasetningar kemur í þessum efnum.