133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

vextir og verðtrygging.

499. mál
[13:46]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Á þinginu í fyrra, 132. löggjafarþingi, var þáverandi viðskiptaráðherra spurður að því hvort hann hygðist beita sér fyrir afnámi verðtryggingar. Í svari ráðherra þá kom fram að skipuð hefði verið nefnd sem falið hefði verið að skoða kosti og galla verðtrygginga lánssamninga og meta áhrif þess á innlent fjármálakerfi, væri heimild til verðtryggingar afnumin eða settar frekari skorður en þegar er að finna í lögum.

Jafnframt kom fram í svarinu að ráðherra mundi fara yfir málið þegar niðurstöður nefndarinnar lægju fyrir. Nefnd þessi er enn að störfum og er niðurstöðu hennar að vænta síðar á þessu ári.

Hvað sem væntanlegum niðurstöðum nefndarinnar líður er ljóst að afnám heimildar til verðtryggingar lánssamninga kynni að reynast mjög flókin í framkvæmd. Hér er rétt að staldra við orðið heimild, því ekkert skyldar lánveitendur til að lána með þessum hætti. Lög setja aðeins skorður við því hversu langir lánssamningar megi vera til þess að heimilt sé að hafa þá verðtryggða.

Líklega er stærsta vandamálið sem staðið væri frammi fyrir við afnám slíkrar heimildar það, að tugir þúsunda verðtryggðra lánssamninga eru í gildi og verða í gildi í allt að hálfan fimmta áratug. Afnám verðtryggingar mundi því aðeins hafa áhrif á ný lán. Annað er það að raunvextir óverðtryggðra lánssamninga eru að jafnaði hærri en verðtryggðra þannig að vaxtabyrði lántakenda mundi þyngjast að því leyti.

Þriðja vandamálið sem rétt er að benda á er að væntanlega mundi lánstíminn styttast verulega og hætt yrði að bjóða upp á fasta vexti. Að lokum má gera ráð fyrir að lán í erlendri mynt yrði miklu algengara form langtímalána hér en verið hefur.

Séu þessi vandamál dregin saman, þ.e. tvöfalt lánakerfi í allt að hálfan fimmta áratug, hærri raunvextir, styttri lánstími og aukin gengisáhætta er erfitt í fljótu bragði að koma auga á hvernig það mundi efla hag lántakenda að beita sér fyrir afnámi verðtryggingar í langvarandi þensluástandi.

Líklega skiptir það miklu meira máli að ná fram langvarandi jafnvægi framboðs og eftirspurnar á lánamörkuðum. Ég er með öðrum orðum sammála hv. þingmanni og hæstv. landbúnaðarráðherra en bendi á að þetta eru hin almennu nauðsynlegu hagrænu skilyrði árangurs.

Ég mun þá víkja stuttlega að annarri og þriðju spurningunni. Það er vissulega rétt að talsmaður neytenda lætur þess getið í umsögn sem hann gaf hv. efnahags- og viðskiptanefnd um frumvarp til laga um breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu að hann teldi það framsal löggjafarvalds, og það stæðist ekki, að fela Seðlabanka Íslands að ákveða vanefndaálag eða dráttarvexti svo sem er í lögum á nánast tilgreindu bili.

Hann byggir þessa fullyrðingu sína á því að hann telur að dráttarvextir sem almenningi sé gert að greiða eigi að ákvarða nákvæmlega með lögum. Í umsögn hans kemur enn fremur fram að hann telji dráttarvexti fela í sér skaðabætur fyrir drátt á greiðslu peningaskuldar. Eins og skaðabætur almennt þá telur hann eðlilegt að dráttarvextir ákvarðist með lögum.

Eins og fram kom í svari talsmanns neytenda mun sá háttur hafður á í Danmörku og Svíþjóð að lögbinda vanefndaálag. Eðlilegt er að þeirri spurningu sé velt upp hvort stíga eigi sömu skref hér á landi jafnframt því að hugað verði að því hversu hátt slíkt álag eigi að vera. Við núverandi aðstæður, þ.e. þenslu í hagkerfinu og umframeftirspurn á lánamörkuðum, er ekki að okkar mati tilefni til þess að hrófla við ákvæðum gildandi laga um vexti og verðtryggingu að því er varðar vanefndaálag og vexti yfirdráttarlána.

Trauðlega verður litið fram hjá því að vanskilavextir eigi að vera hvatning til skilvísi og verður að ætla Seðlabankanum að meta á hverjum tíma hvað sé hæfilegt vanefndaálag til þess að tryggja þá hvatningu innan ramma núgildandi laga.