133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

vextir og verðtrygging.

499. mál
[13:52]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Vegna fyrirspurnar hv. þingmanns vil ég segja að ég er hv. þingmanni sammála og var ekki í vafa um að skoðanir mínar og hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra færu saman í þessu máli. Ég orðaði þetta í kringum ákveðna evruumræðu sem hér hefur alltaf tröllriðið húsum og taldi mikilvægasta verkefni okkar að leggja verðbólguna að velli með skipulegum hætti á þessu ári og ganga síðan í það stóra verkefni að afnema verðtrygginguna í áföngum þannig að íslenskir húsbyggjendur, íslensk fyrirtæki sætu við sama borð.

Það er auðvitað heiðarleg krafa í ljósi þess að bankarnir starfa bæði úti í Evrópu og hér heima og hljóta að vilja að fólkið hér búi við sömu vaxtakjör og sömu skilyrði og lánþegar þeirra annars staðar.

Í stefnu Framsóknarflokksins er kveðið á um að afnema verðtrygginguna. Ég tek undir það. Við verðum að gera það með samkomulagi þannig af því hljótist ekki neitt slys. Þetta er stórt verkefni sem ber að fara í.