133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

fjárveitingar til skógræktar.

504. mál
[13:58]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Helga Þorbergsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Þessi fyrirspurn varðar mikilvæg umhverfismál. Ég beini henni til hæstv. landbúnaðarráðherra vegna þess að sá málaflokkur sem ég nefni sérstaklega er á forræði hans og hans ráðuneytis.

Það er almennt viðurkennt að breytingar á styrk kolefnis í andrúmsloftinu skipta miklu máli í því ferli sem stjórnar hitastigi í andrúmslofti jarðar og á maðurinn mikinn þátt í því að auka þann styrk.

Alþingi Íslendinga hefur staðið myndarlega að því að auka þá starfsemi í landinu sem helst er talið í dag að geti bundið það kolefni sem Íslendingar dæla út í andrúmsloftið árlega. Hér er átt við skógrækt í landinu og þá sérstaklega hin svokölluðu landshlutabundnu skógræktarverkefni.

Timburskógrækt er mun afkastameiri í bindingu kolefnis en hinn gamli íslenski birkiskógur og almennur gróður. Ræktun nýskóga mun samkvæmt Kyoto-bókuninni vera jafngild leið og að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

Hér á landi liggja miklir möguleikar á þessu sviði vegna þess að ekki eru miklir skógar í landinu og talsvert til af landrými. Talað er um að til þess að binda um einn þriðja af því kolefni sem líklegt er að Íslendingar muni losa út í andrúmsloftið um miðja þessa öld þurfi að þrefalda þá gróðursetningu sem stunduð er í dag.

Því spyr ég hæstv. landbúnaðarráðherra hvort hann hyggist enn efla skógrækt í landinu með því að beita sér fyrir frekari fjárveitingum til þeirrar greinar, m.a. með það að markmiði að auka bindingu gróðurhúsalofttegunda.