133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

öryggis- eða leyniþjónustustarfsemi lögreglunnar.

251. mál
[14:09]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég legg fyrirspurn fyrir hæstv. dómsmálaráðherra varðandi umfang og eðli og tímasetningar sem tengjast starfsemi sem ýmist hefur verið nefnd eftirgrennslana-, öryggis- eða leyniþjónustustarfsemi hjá lögregluyfirvöldum, útlendingaeftirliti og lögreglu.

Sú er forsaga þessa máls innan þingsins að í umræðum utan dagskrár 9. október 2006 lagði ég spurningar fyrir hæstv. ráðherra í þessu sambandi sem ég hafði sent ráðherranum áður samkvæmt venju en svörin voru satt best að segja rýr í roðinu. Hvað þennan þátt sérstaklega varðar sagði t.d. hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„Þegar ég las spurningar hv. þingmanns lenti ég í nokkrum vandræðum með svörin því að spurningar hans lúta að löngu liðnum atburðum …“

Ég spurði m.a. um það hvort þessi starfsemi væri enn í gangi eða hvenær henni hefði verið hætt. Af því sést þegar að þetta svar ráðherrans var útúrsnúningur. Ég spurði einnig um stöðu þessara mála í dag eða í nýliðnum tíma.

Seinna sagði ráðherra aftur, með leyfi forseta:

„Eins og áður sagði bý ég ekki yfir þeirri þekkingu á því hvernig öryggisgæslu ríkisins var háttað fyrir mörgum áratugum að ég geti svarað einstökum spurningum hv. þingmanns.“

Er það boðleg frammistaða af hálfu eins ráðherra að bera við þekkingarskorti þegar hann fær spurningar frá þingmönnum um hrein og klár efnisatriði? Ber ekki ráðherranum embættisskylda til að afla upplýsinganna í ráðuneyti sínu og koma með svörin? Kostulegast var þó þegar hæstv. ráðherra skaut sér á bak við skýrslu um sérfræðinga frá ráðherraráði Evrópusambandsins sem hefði gert úttekt á þessum hlutum hér og sagði, enn með leyfi forseta:

„Af úttektinni má ráða að sérfræðingarnir telja lögregluna á Íslandi ekki hafa neinar heimildir til rannsókna án þess að þar búi að baki rökstuddur grunur um saknæmt athæfi. Hér sé því ekki starfandi leyniþjónusta eða rekin leyniþjónustustarfsemi af hálfu lögreglunnar.

Ég tek undir þessa niðurstöðu hinna óháðu erlendu sérfræðinga.“ — Segir hver? Dómsmálaráðherra Íslands, sem er að svara fyrirspurn á Alþingi Íslendinga um tiltekið efni, skýtur sér á bak við það að hann sé sammála erlendum sérfræðingum sem hafi kíkt á málin. Og af því að þeir komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé lagastoð fyrir einhvers konar greiningar-, öryggis- eða leyniþjónustustarfsemi innan lögreglunnar sé hún væntanlega ekki til. Ég er þessu sammála, segir dómsmálaráðherra.

Þess vegna legg ég svohljóðandi fyrirspurn fyrir hæstv. ráðherra og ég vísa til 54. gr. stjórnarskrárinnar en þar er réttur þingmanna til að bera upp fyrirspurn til ráðherra tryggður:

Hvenær lauk eftirgrennslana-, öryggis- eða leyniþjónustustarfsemi þeirri sem upplýst hefur verið að hófst hjá lögreglu um miðbik síðustu aldar eða hefur einhver slík eftirgrennslana-, greiningar-, öryggis- eða leyniþjónustustarfsemi (Forseti hringir.) farið fram hjá lögreglunni allt til þessa dags?

Einnig er spurt um umfang þessarar starfsemi.