133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

öryggis- eða leyniþjónustustarfsemi lögreglunnar.

251. mál
[14:12]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég veit að hæstv. forseti er sammála mér um það að ekki er hægt að spyrja þingmenn eða ráðherra og krefja svara af þeim um eitthvað sem þeir ekki vita. Ég veit ekki hvernig stjórnarskráin getur tryggt það að menn svari um einhverja hluti sem þeir vita ekki um.

Herra forseti. Fyrirspurnir hv. þingmanns eru sprottnar af grein eftir dr. Þór Whitehead í tímaritinu Þjóðmálum þar sem sagt er frá því að á 4., 5. og 6. áratug síðustu aldar hafi verið lagður grunnur að því hjá lögreglustjóranum í Reykjavík að gert væri yfirlit yfir styrk kommúnista í ýmsum lykilstofnunum ríkisins með það í huga að þeir kynnu að geta misnotað aðstöðu sína, sérstaklega á stríðstímum, ef flokkur þeirra krefðist, eins og segir í ritgerð Þórs, með leyfi forseta:

„Þá hafi rannsókn á útlendingum í landinu vafalaust tengst viðvörun Dana um njósnanet danskra kommúnista en einn þeirra átti einmitt að sinna viðgerðum hjá Ríkisútvarpinu.“

Segir Þór frá því að einn maður, Pétur Kristinsson, hafi sinnt skrásetningarstarfi hjá lögreglustjóranum í Reykjavík í upphafi 6. áratugarins og hann hafi starfað náið með Árna Sigurjónssyni, yfirmanni Útlendingaeftirlitsins, og þá hafi verið vitað um a.m.k. þrjá hjálparmenn sem vöktuðu sovéska sendiráðið um þetta leyti. Í ritgerðinni er því lýst hvernig þessi starfsemi þróaðist í tímans rás. Ljóst er að aldrei var hún umfangsmikil. Má vafalaust finna umræður um hana í þingtíðindum ef grannt er skoðað.

Á árinu 1986 ákvað ríkisstjórn undir forsæti Steingríms Hermannssonar að setja á laggirnar starfshóp til að huga að skipulagi innri öryggismála. Baldur Möller, sem þá hafði nýlega látið af störfum sem ráðuneytisstjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, var formaður hópsins og skilaði forsætisráðherra munnlegri skýrslu um málið snemma árs 1987.

Af bráðabirgðaskýrslu sem Baldur ritaði 27. desember 1986 verður ráðið að skömmu áður en hópurinn hóf störf hafi verið gripið til úrbóta í öryggismálum æðstu stjórnar landsins, eins og Baldur orðar það, og telur hann þær aðgerðir á allgóðum vegi en í bráðabirgðaskýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Nú er unnið að mjög kröftugri eflingu tölvustýrðs upplýsingastreymis frá öryggismálastofnunum í öðrum löndum og telur starfshópurinn að þar verði um mjög mikilvæga framþróun að ræða. Jafnframt telur starfshópurinn nauðsynlegt að kanna vel öryggisaðstæður ýmissa viðkvæmustu ríkisstofnana og starfsemi utan þrengstu miðstjórnar ríkisins, svo sem fjarskiptastofnana, útvarps, orkustofnana og flugvalla.“

Af þessari frásögn dreg ég þá ályktun að á þessum tíma hafi íslenska ríkið verið að búa sig undir að sinna þeim verkefnum sem hv. fyrirspyrjandi ræðir á annan veg en gert var á 6., 7. og 8. áratugnum. Skömmu síðar varð hv. þingmaður samgönguráðherra og hlýtur hann að hafa tekið afstöðu til þess hvernig staðið skyldi að öryggi þeirra stofnana sem heyrðu undir ráðuneyti hans.

Í lok júnímánaðar sl. var birt opinberlega úttektarskýrsla sérfræðinga ráðherraráðs Evrópusambandsins í hryðjuverkavörnum. Var úttektin gerð fyrir dóms- og kirkjumálaráðuneytið. Niðurstaða skýrslunnar er að íslenska ríkið reki ekki neina starfsemi sem unnt sé að kenna við leyniþjónustu. Skýrslan gefur gleggri mynd en nokkur önnur opinber gögn af þessum málum hér á landi og þar er gerð tillaga um að koma á laggirnar íslenskri öryggis- og greiningarþjónustu. Sérfræðingarnir töldu hana með öðrum orðum ekki fyrir hendi í landinu.

Ég vænti þess að nefnd undir formennsku dr. Páls Hreinssonar, sem starfar á grundvelli ályktunar Alþingis, geti upplýst þingheim um það efni sem hv. þingmaður nefnir í 2. lið fyrirspurnar sinnar. Ég hef hvorki þekkingu né vitneskju til að lýsa umfangi þeirrar starfsemi sem fyrirspyrjandi nefnir, hverju var safnað, hverjir vissu um þessa starfsemi eða hverjir höfðu aðgang að upplýsingunum.