133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

öryggis- eða leyniþjónustustarfsemi lögreglunnar.

251. mál
[14:16]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra endurtekur sömu svörin og skýtur sér með öllu undan því að svara beinni efnislegri spurningu sem hann fær í fyrirspurnarformi á Alþingi. Hann skýtur sér á bak við það að erlendir sérfræðingar hafi komið og gert úttekt á stöðu þessara mála. Hvert leituðu hinir erlendu sérfræðingar eftir upplýsingum nema í dómsmálaráðuneytið?

Ég vek athygli á því, virðulegur forseti, að ég er að spyrja dómsmálaráðherra Íslendinga og dómsmálaráðherra kemur endurtekið með nokkurra mánaða millibili í ræðustól og ber við þekkingarleysi, að hann hafi hvorki þekkingu né vitneskju. Ég ætlast til þess að hæstv. dómsmálaráðherra afli þessara upplýsinga. Það eru hæg heimatökin því að þær stofnanir sem hér eiga í hlut heyra undir ráðuneyti hans. Eftir því sem gögn eru til í stjórnkerfi Íslands eru þau í stofnunum sem heyra undir hæstv. ráðherra.

Í 54. gr. stjórnarskrárinnar stendur, með leyfir forseta:

„Heimilt er alþingismönnum, með leyfi Alþingis, að óska upplýsinga ráðherra eða svars um opinbert málefni með því að bera fram fyrirspurn um málið eða beiðast um það skýrslu.“

Þetta er stjórnarskrárvarinn réttur þingmanna til að krefja ráðherra svara. Ráðherrar eiga að afla þeirra gagna og upplýsinga sem beðið er um eftir því sem gerlegt er og þær eru til. Það er ekki frambærilegt að hæstv. dómsmálaráðherra komi hér aftur og aftur með þessum hætti og víki sér bersýnilega undan því að svara. Hann gerir ekki einu sinni tilraun til þess með útúrsnúningum af þessu tagi. Ég mótmæli því, herra forseti, að stjórnarskrárvarinn réttur minn sem þingmanns sé lítilsvirtur með þessum hætti.

Ég minni á að það er hlutverk Alþingis að veita framkvæmdarvaldinu aðhald að þessu leyti. Það situr þingbundin ríkisstjórn á Íslandi en ekki ríkisstjórnarbundið þing, hæstv. dómsmálaráðherra (Forseti hringir.) Björn Bjarnason.