133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

fangelsi á Hólmsheiði.

319. mál
[14:22]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Undirbúningur þessa hefur staðið lengi eins og hv. þingmaður vék að. Í fjáraukalögum á síðasta ári var gerð tillaga um að veita 10 millj. kr. til að halda áfram með undirbúninginn vegna þessa máls. Að honum er unnið. Einnig hefur á Alþingi verið lögð fram áætlun um uppbyggingu Kvíabryggju, fangelsis á Akureyri, um framkvæmdir á Litla-Hrauni og stækkun aðstöðunnar þar. Þegar menn fóru yfir þær hugmyndir sem lágu fyrir á sínum tíma um móttöku- og gæsluvarðhaldsfangelsi á Hólmsheiði breyttust viðhorfin og var m.a. tekin ákvörðun um að taka mið af því að kvennafangelsið þyrfti að hverfa o.s.frv. Því lágu ýmsar ástæður til þess að menn fóru yfir þetta mál að nýju.

Fjármálaráðherra og ég höfum síðan unnið að þessu sameiginlega, þ.e. embættismenn á okkar vegum, og m.a. fengið verkfræðinga og Stefán P. Eggertsson verkfræðing til að vera verkefnisstjóra að fangelsisbyggingu. Hann hefur unnið að þessu máli. Ég fullvissa hv. þingmann um að þetta er í vinnslu og að verið er að vinna að þessu.

Ég vil nota tækifærið til að vekja máls á því sem nú er í umræðunni. Eins og menn vita hefur nýtt embætti verið stofnað, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu. Það er augljóst að höfuðstöðvar þeirrar lögreglu verða ekki til frambúðar við Hlemm. Það er ljóst að það er of þröngt. Þetta hefur raunar verið rætt áður og taka þarf afstöðu til þess hvar nýjar höfuðstöðvar lögreglu verða. Í þeirri vinnu hef ég líka óskað eftir því að litið verði til þess hvort skynsamlegt sé að reisa saman lögreglustöð og gæsluvarðhaldsfangelsi og skoðað verði samtímis hvort til sé land undir þetta á höfuðborgarsvæðinu sem er viðunandi og hvort það sé skynsamleg lausn að leysa þetta í einu, að reisa nýja lögreglustöð og leysa gæsluvarðhalds- og fangelsisþörf hér á höfuðborgarsvæðinu.

Starfsmenn Fangelsismálastofnunar og lögregluembættisins á höfuðborgarsvæðinu hafa rætt þetta. Uppi eru ákveðnar hugmyndir um þetta sem ég hef m.a. rætt við fjármálaráðherra sem við viljum að verði hugað að og kannað. Það breytir samt ekki neinu um að við látum þær athuganir ekki tefja fyrir því starfi sem unnið er vegna Hólmsheiðarmálsins. Ef þetta gengur ekki upp verður hitt í þeim farvegi sem það er. Það var alltaf reiknað með því í uppbyggingaráætluninni sem liggur fyrir að Hólmsheiðarfangelsið yrði síðast í röðinni á eftir uppbyggingu á Litla-Hrauni. Náttúrlega má velta fyrir sér hvort ekki sé skynsamlegt að leggja meiri áherslu á aðstöðuna á Litla-Hrauni og skoða fyrir hve stórt fangelsi er þörf á höfuðborgarsvæðinu. Ef við getum tryggt það með hagkvæmni í tengslum við nýja lögreglustöð finnst mér að við eigum a.m.k. ekki að láta það óskoðað á þessu stigi. Það er ekki of seint að skoða það og það spillir ekki fyrir þeim hugmyndum sem menn hafa haft um Hólmsheiðarfangelsið.

Ég þakka fyrir það tækifæri sem ég fæ til að vekja máls á þessu og reifa sjónarmið um þetta mál sem er á viðkvæmu könnunarstigi. Niðurstaðan ræðst náttúrlega af því hvort eitthvert sveitarfélag hér innan höfuðborgarsvæðisins, ef við lítum á það sem eitt lögregluumdæmi, hefur land eða lóð sem mundi gagnast í þessu tilliti. Ég tel mikilsvert að bæði forustumenn hjá lögreglustjóraembættinu á höfuðborgarsvæðinu og forstöðumenn Fangelsismálastofnunar, ásamt með verkefnisstjóranum Stefáni P. Eggertssyni, leggjast a.m.k. ekki gegn því að þessi leið verði íhuguð og skoðuð.

Ég geri þetta ekki til þess að skjóta málinu á frest. Eins og hv. þingmaður vakti máls á er eftir fimm áratuga, eða sex áratuga bráðum, baráttu fyrir því að koma upp almennilegu fangelsi kominn tími til að finna lausn sem almennileg sátt myndast um. Það er ekki einleikið að menn skuli ekki hafa lokið málinu.