133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

fangelsi á Hólmsheiði.

319. mál
[14:28]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Guðjón Ólafur Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir svörin. Mér finnst stóru pólitísku tíðindin í svari hæstv. dómsmálaráðherra felast í að verið sé að skoða hvort byggja eigi saman nýjar höfuðstöðvar lögreglu á höfuðborgarsvæðinu og nýtt gæsluvarðhaldsfangelsi í staðinn fyrir fangelsi sem rísa átti á Hólmsheiði.

Það er sjálfsagt að yfirmenn lögreglu og fangelsismála og dómsmálaráðuneytis skoði þann möguleika og þá yrði væntanlega frekari uppbygging á Litla-Hrauni sem afplánunarfangelsi. Ég tel hins vegar brýnt, og tek undir það með hæstv. dómsmálaráðherra, að það verður að leiða þessi mál til lykta. Það er of langur tími að taka fimm áratugi í að ákveða hvort byggja eigi nýtt fangelsi í Reykjavík eða ekki.

Ég vek athygli á því að í skýrslu eftirlitsnefndar Evrópuráðsins árið 1998 ítrekaði nefndin þá kröfu að íslensk stjórnvöld settu byggingu nýs gæsluvarðhaldsfangelsis í Reykjavík í forgang. Nú eru að verða liðin níu ár, hæstv. forseti, síðan skýrslan kom út. Í sjálfu sér hefur lítið verið gert í gæsluvarðhaldsfangelsismálum, a.m.k. hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er ákveðið óhagræði af því fyrir lögregluna að þurfa sífellt að aka austur á Litla-Hraun með fanga og í skýrslutökur.

Ég treysti hæstv. dómsmálaráðherra til að taka af alvöru og festu á þessum málum eins og öðrum sem hann hefur tekist á við á síðustu missirum.