133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

fangelsi á Hólmsheiði.

319. mál
[14:30]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Spurt var hvort þetta væri ágreiningur um hvort yfirleitt ætti að reisa gæsluvarðhaldsfangelsi í Reykjavík eða ekki. Málið snýst ekki um það. Það verður að vera gæsluvarðhaldsfangelsi á höfuðborgarsvæðinu. Spurningin er hvað það eigi að vera stórt og hvaða kröfur eigi að gera í því efni.

Það er alveg tvímælalaus skoðun mín að þessi fangelsisaðstaða verður að vera hér á höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar kann verkaskipting á milli Litla-Hrauns og slíks fangelsis að vera álitamál en það var búið að fara yfir það, og þessar áætlanir sem unnið er samkvæmt núna gera ráð fyrir því að flytja hluti sem var kannski hugsað að hafa á Hólmsheiði á Litla-Hraun. Enginn hefur þó verið með vangaveltur um að hverfa frá því að hér rísi gæsluvarðhaldsfangelsi. Það er nauðsynlegt að gera áætlanir og standa við þær til þess að fangelsið við Skólavörðustíg hverfi úr notkun. Það er augljóst að í Kópavogi er kvennafangelsið á þeim stað að það verður ekki til frambúðar þannig að það verður að taka þessar ákvarðanir. Þetta hefur vafist fyrir mönnum í marga áratugi og þeir ýtt því á undan sér og alls konar hlutir gerst í því. Ég þekki ekki alla þá sögu en ég tel að við séum hér með tvo kosti og það eigi að skoða þá báða og einhenda sér svo í að reisa þetta hús. Ég tel að ef farið yrði í það t.d. að reisa sameiginlegt hús fyrir bæði fangelsi og lögreglu mundu losna miklir fjármunir sem eru núna nýttir í húsakost fyrir lögregluna þannig að með einkaframkvæmd ætti að vera hægt að gera þetta á skömmum og skynsamlegum tíma.