133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

aðgerðaáætlun til að stemma stigu við mansali.

434. mál
[14:35]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef sem ráðherra látið frekar verkin tala en að sitja við að semja áætlanir. Þannig hefur verið unnið í þessu máli. Það hefur ekki verið sest niður til að semja áætlanir, heldur hafa verkin verið látin tala, m.a. með breytingum á lögum og með flutningi frumvarpa, m.a. um breytingar á lögreglulögunum, upptöku greiningardeilda og annarra slíkra þátta. Við höfum styrkt lögregluna til að sinna þessum málum og berjast við alþjóðlega glæpastarfsemi. Ég hef talið mikilvægara að kröftum ráðuneytisins yrði varið til þess að vinna að slíkum umbótamálum en að setjast niður við að semja einhverjar áætlanir. Ég tel miklu meira virði fyrir borgarana að unnið sé að málunum með þeim hætti sem við höfum gert í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu á þessu sviði en að velta fyrir okkur einhverri áætlanagerð.

Við getum farið á hvaða fund sem er, hvaða norræna fund sem er eða baltneskan og sýnt fram á það að við höfum ekki verið að vinna að neinni áætlanagerð heldur höfum við framkvæmt skýra stefnu í löggæslumálum okkar og varðandi þá þætti sem hafa skilað þeim árangri að hér er öruggara landamæraeftirlit og öruggara eftirlit með skipulagðri glæpastarfsemi en var þegar menn ákváðu að fara út í einhverja áætlanasmíði.

Fyrir utan það hef ég lagt fram á þinginu, og hv. þingmaður hefur fjallað um það væntanlega í allsherjarnefnd, frumvörp um eflingu og styrkingu á kynferðisbrotakafla hegningarlaganna sem tekur á þessum málum. Síðan höfum við líka tekið þátt í alls konar samstarfi, bæði á vettvangi Evrópuráðsins og Norðurlandaráðs um þessi málefni, á ráðherrafundum og víðar og lagt okkar af mörkum þannig að ég segi nú bara: Ef ég ætti að sitja og semja áætlanir í staðinn fyrir að beita mér fyrir því sem við höfum gert á þessu sviði held ég að ástandið væri ekki eins gott hér og raun ber vitni.