133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

aðgerðaáætlun til að stemma stigu við mansali.

434. mál
[14:40]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að gera lítið úr aðgerðaáætlunum í Danmörku eða Noregi eða öðrum löndum. Hv. þingmaður hefur þing eftir þing flutt tillögur um það að við eigum að taka upp eitthvert sænskt kerfi varðandi vændismál af því að Svíar hafi gert eitthvað. Það bara á ekki við hér á landi. Það verður að fara yfir málið og skoða stöðuna hér.

Ef það er verið að spyrja mig sem dómsmálaráðherra um félagsleg úrræði er rangur ráðherra spurður. Ég er að vinna að því að koma í veg fyrir að mansal og þessir hlutir eigi sér stað í landinu með því að stoppa það strax við landamærin þannig að það komist ekki inni í landið, að það sé tekið þannig á málum að alþjóðleg glæpastarfsemi sé upprætt hér og þeir hringar sem vinna í því að smygla konum eða börnum inn í lönd, koma sér fyrir og hreiðra um sig. Það er mitt verkefni. Ég tel að við höfum gert ráðstafanir í því skyni og að við búum ekki við sama vanda og í Danmörku eða Noregi að þessu leyti og þess vegna snúi málið ekki að mér með sama hætti og þetta snýr að dómsmálaráðherrum í þessum löndum. Eins tel ég að þingmaðurinn fari villur vegar þegar hv. þingmaður ræðir um að við eigum að taka upp eitthvert sænskt kerfi hér út af vændismálum i Svíþjóð sem eiga ekki erindi hingað.

Þingmaðurinn getur lesið allar þær skýrslur sem henni bjóðast og hún fær á sín borð en að koma hingað og spyrja mig sem dómsmálaráðherra hvort ég ætli að heimfæra yfir á Ísland þetta ástand sem er í Danmörku og Noregi eða hvaða löndum sem er þá er það ekki mitt hlutverk og ég ætla ekki að gera það.