133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

hlutfall verknámsnemenda.

331. mál
[14:58]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Þetta er sannarlega jákvætt mál en ég vil líka vekja athygli á því varðandi umræðuna um fjármuni til verknáms og iðnnáms, að þá hefur það í rauninni verið sérstaklega leiðrétt verknáms- og starfsnámsskólunum í hag á síðustu árum og var farið sérstaklega í það árið 2003 að leiðrétta reiknilíkanið með það í huga að styrkja stöðu verknámsskólanna.

Hitt atriðið sem komið var hér inn á var um nám í heimabyggð. Ef við lítum núna á það sem hefur verið að gerast á framhaldsskólastigi á undanförnum missirum, bara á síðasta ári, hefur stefnan verið sú, undir minni stjórn, að færa námið, færa tækifærin eins nálægt heimabyggðinni og hægt er. En auðvitað að teknu tilliti til þess hversu mikla sérhæfða þjónustu við getum boðið upp á á hverjum stað, m.a. með tilliti til fjármagns og aðstæðna. Auðvitað verður að taka tillit til þess. Ég nefni í þessu samhengi m.a. framhaldsskóladeildina á sunnanverðum Vestfjörðum, á Patreksfirði, þar sem við erum að tengja saman, m.a. í gegnum tæknina, landshluta sem hefur ekki setið nákvæmlega við sama borð í rauninni og aðrir landshlutar í framhaldsskólakerfinu. Við gerum það m.a í gegnum tæknina og síðan í góðu samstarfi og samvinnu við Fjölbrautaskóla Snæfellinga á Snæfellsnesi. Þetta er dæmi um að við erum að færa framhaldsskólann nær heimabyggðinni.

Annað dæmi sem ég get nefnt um framhaldsskóla sem er núna í undirbúningi er framhaldsskóli eða menntaskóli í Borgarfirði, sem ég tel vera mjög athyglisvert mál. Þar eru sveitarstjórnir í samvinnu við okkur að huga að því að námið allt á því svæði verði ein samfella og við skoðum námið heildstætt, þ.e. leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og síðan eru þessi ótal tækifæri til háskólanáms á því svæði.