133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

tilraunaverkefnið Bráðger börn.

441. mál
[15:01]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég beini eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra:

1. Hver er staða tilraunaverkefnisins Bráðger börn?

2. Hefur verið gerð úttekt á áhrifum þess verkefnis á börnin sjálf?

3. Er fyrirhugað að verkefnið nái til barna utan höfuðborgarsvæðisins og jafnvel annarra aldurshópa?

Í upphafi árs 2001 var sett á laggirnar verkefnið Bráðger börn en að því stóðu Heimili og skóli, Háskóli Íslands og Fræðslumiðstöð Reykjavíkur. Náði það til u.þ.b. 200 barna á Stór-Reykjavíkursvæðinu á aldrinum 11–13 ára. Þau voru valin eftir einkunnum að einhverju leyti en líka samkvæmt ráðleggingum kennara en það er að sjálfsögðu mjög erfitt að mæla hæfileikarík börn.

Verkefnið stóð í nokkur ár og ég vil geta þess að foreldrar voru mjög þakklátir fyrir þetta verkefni þó að þeir hefðu greitt helminginn af kostnaðinum. Ég vil líka geta þess að prófessorar við háskólann komu mjög sterkt að þessu verkefni. Svo vil ég geta Meyvants Þórólfssonar sem var mikil driffjöður í verkefninu en því var startað að mínu frumkvæði.

Staða þessara barna er þannig að þetta eru börn sem eru á sitt hvorum enda skalans, þ.e. börn sem eiga erfitt með nám og svo börn sem eiga mjög gott með nám, og í bekknum eru báðir hóparnir álitnir skrýtnir. Bráðger börn eru merkilegt nokk oft með mjög slæma sjálfsmynd. Þau passa ekki inn í hópinn, þau eru kölluð „proffar“, stundum lenda þau í einelti. Það kom í ljós þegar ég talaði við foreldra þessara barna að þau voru oft mjög með slæma sjálfsmynd.

Þá var líka einkennandi þegar hópurinn kom saman að þessi börn höfðu enga viðspyrnu. Í bekknum voru þau alltaf langbest og þurftu aldrei að leggja neitt á sig, fylltust námsleiða, en þegar þau komu saman sáu þau að þau höfðu eitthvað til að keppa að, keppa við einhverja og fengu viðspyrnu. Þá kom líka fram í viðtölum við foreldra að skarpir nemendur vilja oft fá skýringu á ýmsum reglum sem skólakerfið setur upp, sætta sig oft ekki við svörin og lenda oft í uppreisn og lenda jafnvel á refilstigum. Það virðist sem miklir hæfileikar geti verið allt að því ígildi fötlunar ef vandi þessa hóps er ekki viðurkenndur.

Þess vegna er mjög brýnt og mikilvægt að við mætum þörfum þessara barna með krefjandi verkefnum og með því að leiða þau saman. Þau þurfa sérkennslu ekki síður en hinn hópurinn. Það er því mjög mikilvægt að þjóðin nýti hæfileika þessara barna, sem eru geysilega miklir, en hún hefur því miður ekki gert það hingað til. Þess vegna spyr ég þessara spurninga: Hvernig sjá menn þetta fyrir sér til framtíðar og hvað ætla menn að gera til að mæta þörfum þessa hóps?