133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

stefnumótun um aðlögun innflytjenda.

[10:37]
Hlusta

Guðrún Ögmundsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Hæstv. félagsmálaráðherra hefur gert örlitla grein fyrir þeirri vinnu sem liggur að baki stefnu ríkisstjórnarinnar um aðlögun innflytjenda. Ég vil meina að það sé tvennt eða þrennt sem þarf að fara í núna eins og skot. Það er m.a. að svona plagg verði gert að t.d. þingsályktunartillögu með aðgerðaáætlun sem fylgiskjali, en fara þarf í tvær mjög mikilvægar lagabreytingar strax. Annars vegar að gefa innflytjendaráði lagastoð, eins og rætt hefur verið um í sölum Alþingis, til að innflytjendaráð geti verið það tæki fyrir stjórnvöld til að vinna að þeim breytingum sem þarf að gera, ekki bara núna heldur í framtíðinni og geti alltaf verið á þeirri vakt. Það gefur líka innflytjendaráði þann möguleika að setja undirnefndir til að fara að vinna slíka vinnu. Núna er slíkt ekki hægt.

Síðan þarf að gera aðra breytingu strax til að eitthvað af þessu fari að virka og það eru lög um túlkaþjónustu. Við erum einungis með hana hvað varðar sjúkrahúsin en það verður að koma með slíka breytingu inn í félagsþjónustu sveitarfélaga og fleiri staði því að við vitum vel að þetta mál er mjög viðkvæmt og hefur verið mistúlkað eins og við þekkjum úr fjölmiðlum.

Ég vil einnig benda á að þetta er ekki fyrsta tillagan sem er send til ríkisstjórnar um heildarstefnumótun í þessum málum. Það var líka gert í ráðuneytinu 1999 og síðan liggur fyrir þinginu mjög veigamikil tillaga um svipað efni, en ég vil jafnframt fagna mjög því skjali sem hér er. En það verður að gefa innflytjendaráði lagastoð til að hægt sé að setja einhverja vinnu í gang og setja fólk til verka.