133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

stefnumótun um aðlögun innflytjenda.

[10:41]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég er ekki alveg eins harður í garð hæstv. félagsmálaráðherra og hv. síðasti ræðumaður. Ég tel að það sé jákvætt af ríkisstjórninni að hafa gert reka að því að leggja fram stefnu í málefnum innflytjenda. Ég tel að mikilvægt sé að sem breiðust samstaða náist um þann málaflokk. Miklar og á köflum erfiðar umræður hafa verið um hann á síðustu vikum og ég tel að sá málaflokkur sé þess eðlis að miklu máli skipti að þingið fái að ræða það mál og reyna að móta sameiginlega.

Í umræðunni hefur komið fram að aðrir stjórnmálaflokkar, þar á meðal Samfylkingin, hafa lagt fram vönduð þingmál um þetta. Það er til marks um að flokkarnir hafa vel útfærðar stefnur í þeim málaflokki. Ég held að ef hæstv. félagsmálaráðherra vill standa við þau orð sem hann hefur áður látið falla í fyrri ræðum, um nauðsyn breiðrar samstöðu, eigi hann einmitt að koma með málið inn í þingið. Ég er síður en svo að gagnrýna þetta mál eins og það liggur fyrir af þeirri einföldu ástæðu að ég þekki það ekki nema úr fjölmiðlum, en sem kjörinn fulltrúi vil ég fá að taka þátt í umræðum um það og m.a. að reyna að bæta það út frá þeim sjónarmiðum sem minn eigin flokkur hefur.

Ég tók eftir að hæstv. ráðherra sagði hérna áðan að nú mundi hann ræða við samráðherra sína um hvernig ætti að taka þetta inn í þingið. Það finnst mér auðvitað vera tæknilegur galli á málinu. Það hefði átt að vera búið að ganga frá því áður. En hugsanlega er það rétt sem kom fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni að fljótaskriftin og hraðinn á málinu sé slíkur að ekki hafi verið búið að ganga frá því. Það er algjört skilyrði, að ef menn ætla sér að ná samstöðu um málefni innflytjenda verður þingið að fá að ræða það og það verður að gera með þeim hætti úr því sem komið er að hæstv. ráðherra leggi fram (Forseti hringir.) skýrsluna og stefnuna til formlegrar umræðu í þinginu.