133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

stefnumótun um aðlögun innflytjenda.

[10:43]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að ræða annað mál undir liðnum um störf þingsins, brýnt sem það mál sem áður hefur verið til umræðu er. Ég vil ræða það, virðulegur forseti, að í fyrirspurnatíma í gær gerðist það í annað sinn að hæstv. dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, vék sér með öllu undan að svara spurningum sem ég hef lagt fyrir hann varðandi símhleranir og meinta eftirgrennslana- eða leyniþjónustustarfsemi á vegum lögreglu- og dómsmálayfirvalda á umliðnum áratugum. Í þetta sinn var um að ræða formlega fyrirspurn á Alþingi og ég vísaði m.a. í 54. gr. stjórnarskrárinnar hvað varðar rétt minn til þess að leggja hana fram, bera hana upp við ráðherrann og fá svör. Ég tel að alger undanbrögð hæstv. dómsmálaráðherra í þessum tveimur tilvikum, í utandagskrárumræðu um málið 8. október sl. og aftur þegar hann svaraði eða öllu heldur ekki svaraði fyrirspurn minni í gær, séu mjög alvarleg atlaga að rétti okkar þingmanna, stjórnarskrárvörðum rétti okkar þingmanna til að krefja framkvæmdarvaldið um upplýsingar.

Ég hef því lagt fram, virðulegur forseti, fyrirspurn á nýjan leik í níu töluliðum, umorðaða að nokkru leyti, þar sem ég óska skriflegs svars frá hæstv. dómsmálaráðherra um þau málefni sem hann hefur í tvígang hunsað að svara á Alþingi. Ég hef óskað eftir því að forseti Alþingis og forsætisnefnd fari yfir umræðurnar frá 8. október og frá því í gær. Ég óska eftir því að forsætisnefnd kveði upp úr um hvort það séu viðeigandi viðbrögð af hálfu hæstv. dómsmálaráðherra sem þar birtast. Ég hef óskað eftir því að forsætisnefnd taki málið fyrir á grundvelli réttar míns sem þingmanns samkvæmt 54. gr. stjórnarskrárinnar með vísan einnig til 1. og 51. gr. stjórnarskrárinnar sem málið varða.