133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

stefnumótun um aðlögun innflytjenda.

[10:48]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég held að full ástæða sé til að fagna þeirri tímamótastefnu sem ríkisstjórnin kynnti í gær og innflytjendaráð hefur unnið að um nokkuð langan tíma, eins og fram hefur komið. Lagt í þetta mikla vinnu og kallað til marga aðila til að ná saman þeirri stefnumótun sem hér birtist. Ríkisstjórnin hefur svo samþykkt þá stefnumótun. Fram hefur komið í máli hæstv. félagsmálaráðherra að þegar þar að kemur verði þetta auðvitað lagt fyrir Alþingi með einhverjum hætti.

Ég fagna því að hv. þingmenn, sérstaklega Samfylkingarinnar, hafa tekið undir það að hér sé um tímamótastefnumótun ríkisstjórnarinnar að ræða og hafa tekið undir að þetta sé gott starf sem hefur verið unnið. (Gripið fram í.) Vera má að hv. þm. Ögmundur Jónasson hafi ásamt öðrum tekið undir þá stefnumótun. Þá getum við orðið sammála um það á Alþingi að það var mjög gott að þetta kom fram. Orð um það að farið sé að nálgast kosningar eitthvað of mikið er óþarfi þegar búið er að vinna í svo langan tíma að málinu, eins og við þekkjum. Þá er full ástæða til að birta stefnuna þegar hún er fram komin. Auðvitað þarf eftirfylgni og það þarf, eins og ég sagði, samstarf margra aðila. Mörg ráðuneyti koma að þessu og sveitarfélögin sem hafa hlutverki að gegna. Ekki síst, eins og hér kemur fram, er hlutverk menntamálaráðuneytisins mikilsvert varðandi tungumálakennslu. Allt þetta mun auðvitað birtast í stefnunni og henni verður framfylgt.