133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

umræða um málefni útlendinga.

[10:55]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna fundarstjórnar forseta í tengslum við málið sem við höfum verið að ræða, um málefni innflytjenda. Ég tel það afar mikilvægt og merkilegt að hæstv. félagsmálaráðherra er búinn að leggja fram mjög heildstæða og góða stefnu varðandi málefni útlendinga og að hann hefur lagt sig allan fram um að kynna hv. félagsmálanefnd þá stefnu í morgun. Það er mikilvægt að þingið komi að málinu á einn eða annan hátt en mér finnst hins vegar nöturlegt að finna það að Vinstri grænir hafa farið öfugu megin fram úr rúminu í morgun og sjá þetta í allt öðru ljósi. Ég tel að menn ættu að fagna sérstaklega því að búið er að kynna heildstæða stefnu varðandi málefni útlendinga.

Ég tek hins vegar heils hugar undir með þingflokksformanni Samfylkingarinnar og hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, að ég tel mikilvægt að þingið ræði málefni innflytjenda. Ég tek undir þá beiðni og þá ósk að við ræðum málefni útlendinga á forsendum þess að hæstv. félagsmálaráðherra kynni hér skýrslu því að hæstv. félagsmálaráðherra hefur lagt sig sérstaklega fram um það að ræða málefni útlendinga á mjög breiðum grunni. Ég veit að hann vill sérstaklega ræða málefnið við hv. þingmenn því málefnið er mikilvægt. Þess vegna beini ég því til forseta að taka þá beiðni til greina.