133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

umræða um málefni útlendinga.

[10:58]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Greinilegt er að það er ekki bara ríkisstjórnin sem hefur vaknað af værum blundi í sambandi við málefni útlendinga heldur og einstakir ráðherrar hennar sem biðja um orðið um fundarstjórn forseta til að verja hendur sínar í þessum efnum. Það er auðvitað gott. Batnandi mönnum er best að lifa en það liggur algerlega ljóst fyrir að stjórnvöld voru sofandi, ákaflega sofandi, og hrukku svo í gang undan umræðu sem orðin var þung í samfélaginu um hvert þessi mál væru að þróast og fóru að setja svolitla peninga og einhverja vinnu af stað hvað varðar stefnumótun á þessu sviði. Málefni sem hefur auðvitað verið iðulega til umfjöllunar á Alþingi. Það er undarlegt þegar menn tala þannig eins og þeir séu alltaf að finna upp hjólið. Auðvitað hafa verið frumvörp og þingmál á umliðnum árum sem tengjast réttindum og stöðu útlendinga með margvíslegum hætti flutt af mörgum þingflokkum.

Ég vil svo víkja að öðru máli sem ég tók upp undir liðnum um störf þingsins og inna forseta eftir því vegna þess að forseti tjáði sig ekki um ósk mína, hvort ég megi leyfa mér að túlka þögn forseta sem sama og samþykki, þ.e. formleg ósk mín um að forsætisnefnd taki málið til skoðunar, að við henni verði orðið. Ég kýs að túlka þögn forseta sem samþykki við því.