133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

umræða um málefni útlendinga.

[11:00]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Til þess að taka af allan vafa vil ég að það komi alveg skýrt fram að þessi formaður þingflokks fór rétt fram úr rúminu í morgun glaður og brosandi. Hins vegar sýndist mér hv. formaður þingflokks Framsóknarflokksins hafa allt á hornum sér áðan. Ég skil satt að segja ekki að hv. formaður þingflokks Framsóknarflokksins leggi það af mörkum til að greiða fyrir málinu eða þingstörfum almennt að skrumskæla og afbaka það sem menn hafa sagt. (Gripið fram í.)

(Forseti (SP): Forseti minnir hv. þingmann á að hann er að ræða um fundarstjórn forseta.)

Frú forseti. Það er nákvæmlega það sem mér er ákaflega ofarlega í sinni og hefði kannski átt að vera hæstv. forseta líka ofarlega í sinni þegar þeir tveir ráðherrar sem töluðu áðan komu í pontu. Það er engu líkara en einhverjar aðrar reglur gildi um þá. Hæstv. menntamálaráðherra sem að vísu flutti óvanalega gott mál áðan ræddi hins vegar ekki nema efnislega um málið. Ég mælist til þess, frú forseti, að þó að ég beri óttablandna virðingu fyrir hæstv. menntamálaráðherra sé hún eigi að síður sett á sömu lágu skörina og formaður þingflokks Samfylkingarinnar í málinu. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Það sem ég vildi segja er þetta: Það er nauðsynlegt að menn ræði málefni innflytjenda og það er nauðsynlegt að allir reyni að leggja á sig til að ná breiðri samstöðu sem sker á alla flokka í málinu. Þess vegna kom ég með þá hugmynd áðan, sem hæstv. menntamálaráðherra tók undir, að byrjað yrði á því að taka þá stefnu sem nú hefur verið lögð fyrir af hálfu hæstv. félagsmálaráðherra til umræðu í þinginu. Ég tel sjálfsagt að í kjölfar þess komi þetta síðan inn í þingið sem formlegt þingmál sem verði sent til umsagna úti í samfélaginu til að fá sem flest, ríkust, breiðust og ólíkust viðhorf gagnvart þessu flókna máli.

Þannig held ég að þetta þing gæti náð góðri samstöðu um málið. Þá þyrfti hæstv. forseti ekki að hafa nokkrar áhyggjur af því að leið þess í gegnum þingið yrði ekki greið. Ég lýsi því yfir, fyrir hönd þingflokks Samfylkingarinnar, að við mundum greiða fyrir því að málið fengi formlega afgreiðslu af hálfu þingsins ef það kæmi inn sem þingmál áður en þingi sleppir í vor. Ég vona nú að allir séu kátir og glaðir þegar þessari ræðu lýkur.