133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

umræða um málefni útlendinga.

[11:03]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tel mjög mikilvægt að breið samstaða náist um málefni innflytjenda og um stefnumótun í því efni. Ég gat um það áðan að ég teldi að sá grunnur sem nú hefði verið lagður væri að mörgu leyti mjög góður. Ég fagna þessari vinnu og ítreka þá afstöðu að sú vinna sem fulltrúar frá innflytjendaráði og ýmsum öðrum hópum hafa komið að er prýðileg.

Ég gagnrýni hins vegar vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og vil taka undir það sem hér hefur komið fram, m.a. í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, að mjög mikilvægt er að mynda breiða samstöðu um þetta málefni á Alþingi. Til þess þarf málið að koma inn í þingsalinn með formlegum hætti. Eftir því kallar stjórnarandstaðan. Síðan er hitt atriðið sem hefur farið fyrir brjóstið á ráðherrum í ríkisstjórninni og talsmönnum stjórnarmeirihlutans á Alþingi, að ég hef gagnrýnt það að ráðuneytum skuli umbreytt í kosningaskrifstofur stjórnmálaflokkanna í aðdraganda alþingiskosninga. (Forseti hringir.) Það er mjög alvarlegur hlutur. (Forseti hringir.) Ég velti því fyrir mér, hæstv. forseti, og vil beina því … (Forseti hringir.)

(Forseti (SP): Forseti vill minna hv. þingmann á að hann er að ræða um fundarstjórn forseta.)

Ég er að ræða um fundarstjórn forseta á nákvæmlega sama hátt og á sömu forsendum og hæstv. menntamálaráðherra gerði hér áðan án þess að athugasemd væri gerð við mál hennar. Ég er að vekja athygli þingsins á grafalvarlegu máli.

Ég velti fyrir mér hvort setja eigi þá reglu að ráðherrum verði óheimilt að gefa kosningaloforð í formi fjárhagsskuldbindinga ríkissjóðs fram í tímann eins og dæmi eru um nú og í aðdraganda síðustu kosninga. Ég minni þar á það dæmi sem frægt varð að endemum þegar ríkisstjórnin lofaði upp í ermina á sér gagnvart öryrkjum og sveik svo loforðin þegar hún hafði sest að nýju á valdastóla. (Forseti hringir.)

(Forseti (SP): Forseti telur að hv. þingmaður hafi ekki að öllu leyti farið að reglum og rætt um fundarstjórn forseta.)